Rekstrarafgangur síðasta árs, eftir afskriftir, nam 760 milljónum króna en árið 2008 var afgangurinn 504 milljónir króna. Franz Árnason forstjóri Norðurorku segir að menn hafi í raun ekki átt von á öðru en að halda sjó á milli ára en hins vegar komi á óvart hversu tekjuaukningin er mikil. Hann segir fjórar megin ástæður skýra þessar breytingar varðandi afkomu fyrirtækisins - auknar tekjur, lægri rekstrarkostnaður, sala á hlut fyrirtækisins í Þeistareykjum og endurmat eigna.
"Tekjur jukust um 11%, eða um tæpar 220 milljónir króna og rekstrarkostnaður lækkaði um 50 milljónir króna. Sala á hlut fyrirtækisins í Þeistareykjum ehf. skilaði sér inn í fjármagnstekjur þannig að hagnaður ársins eftir fjármagnsliði og reiknaðan tekjuskatt er 1,2 milljarður króna en tap upp á rúma 2,3 milljarða varð af rekstri árið áður. Þó ekki hefði komið til sölunnar á hlutnum í Þeistareykjum hefði samt orðið hagnaður af rekstri síðasta árs. Hin góða rekstrarniðurstaða, ásamt endurmati eigna, gerir það að verkum að eigið fé Norðurorku er nú 37,1% í stað 2,6% í árslok 2008."
Franz segir að fyrir liggi samþykkt stjórnar Norðurorku þess efnis að þeir fjármunir sem koma inn fyrir söluna á Þeistareykjum skuli notaðir til að greiða niður skuldir. Hann segir jafnframt að ef ekki verði frekari kollsteypur í efnahagsmálum muni Norðurorka geta staðið við allar skuldbindingar félagsins á komandi árum, ef verðskrár verða látna endurspegla verðlagsbreytingar samkvæmt viðurkenndum mælikvörðum. "Ef krónan styrkist og verðbólga minnkar kann að myndast svigrúm sem nýta má til hagsbóta fyrir viðskiptavini. Það virðist hins vegar ganga mjög illa að lækka verðbólguna hér á landi, þrátt fyrir göfug markmið."
Franz segir að þó svo að verulegur hluti skulda Norðurorku sé í erlendum myntum sé vaxtarmunur en gífurlegur, innlendum skuldum í óhag. "Innlendu lánin hækka auk þess með verðbólgu, þannig að á síðasta ári var umtalsvert hagstæðara að skulda í erlendri mynt," segir Franz.
Hjá Norðurorku starfa um 50 manns og hefur lítil breyting orðið þar síðustu ár. "Við fjölguðum ekki starfsmönnum í þenslunni, heldur keyptur vinnu að. Fyrir vikið höfum við ekki þurft að fækka starfsmönnum og engar áætlanir um slíkt. Hins vegar var yfirvinna skorin töluvert niður." Franz segir að ekki sé þörf fyrir stórar framkvæmdir á næstunni en þó sé verið að skoða möguleika á að leggja hitaveitu frá Hrafnagili suður að Grund og Árbæ. "Hvort af því verður ræðst af vilja þeirra íbúa sem þarna búa."