Áfall fyrir ferðaþjónustu á norðanverðu landinu

Farþegar á vegum Super Break á Akureyrarflugvelli. Mynd/Markaðsskrifstofa Norðurlands
Farþegar á vegum Super Break á Akureyrarflugvelli. Mynd/Markaðsskrifstofa Norðurlands

Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu Norðurlands segir það mikið áfall að SuperBreak hafi farið í þrot og þau flug sem áætluð voru frá Bretlandi næsta vetur því fyrir bí.  Tekjur sem komu inn á Norðurlandi á liðnum vetri vegna SuperBreak flugsins eruð áætlaðar um 500 milljónir króna, „og við bjuggumst við 7 til 10 þúsund gistinóttum hér á svæðinu næsta vetur.“

Arnheiður segir að bresku gestirnir hafi gert ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að hafa opið yfir erfiðasta tíma vetrarins og þannig hafa þau þróað sína þjónustu. „Við vonum að þetta verkefni hafi haft góð áhrif á þjónustuna þannig að auðveldara verði að fá nýja aðila að verkefninu en við munum leita allra leiða til þess. Markaðssetning á Norðurlandi hefur verið kröftug í kringum þetta flug og vonandi skilar það sér í auknum áhuga Bretanna sem geta þá komið norður eftir öðrum leiðum,“ segir hún.

Breska ferðaskrifstofan Super Break hefur undanfarna tvo vetur boðið upp ferðir til Íslands þar sem flogið var beint frá nokkrum breskum borgum til Akureyrar. Til stóð að halda því flugi áfram eftir áramótin og var búið að boða fjórtán ferðir til Akureyrar frá Bretlandi á tímabilinu febrúar og út apríl árið 2020. Þau áform eru runnin út í sandinn því tilkynnt hefur verið m.a. á Twittersíðu ferðaskrifstofunnar að félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Lyftistöng fyrir ferðaþjónustu

Þessar ferðir hafa verið mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi á tímabili þegar hvað minnst er umleikis í atvinnugreininni. Í frétt á vefnum turisti.is kemur fram að gera megi ráð fyrir að um 3.500 farþegar hafi nýtt sér þennan ferðamáta á tímabilinu janúar, febrúar og mars fyrr á þessu ári. Um var að ræða pakkaferðir ýmist þriggja eða fjögurra nátta þannig að viðskiptavinir ferðaskrifstofunnar hafa staðið fyrir um 12 þúsund gistinóttum á norðlenskum hótelum fyrstu þrjá mánuði ársins Erlendir gestir nýttu um 35 þúsund hótelnætur á norðanverðu landinu á þessu tímabili og því ljóst að gjaldþrot bresku ferðaskrifstofunnar er áfall fyrir ferðaþjónustu í landshlutanum.

 


Athugasemdir

Nýjast