Það ræðst í kvöld hvort það verður Akureyri eða Valur sem mætir Haukum í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla, en liðin mætast í oddaleik í Vodafonehöllinni kl. 19:30. Valur jafnaði einvígi liðanna í 1:1 sl. laugardag og því um hreinan úrslitaleik að ræða í kvöld. „Við erum bara rólegir og fínir og ætlum okkur ekkert í sumarfrí eftir leikinn í kvöld,” sagði Heimir Örn Árnason leikmaður Akureyrar við Vikudag í morgun.
„Við þurfum bara að spila örlítið betur í kvöld en í Höllinni sl. laugardag. Það sem þarf að laga er kannski helst markvarslan sem klikkaði í síðasta leik.” Heimir segir að norðanmenn eigi helmings möguleika gegn Valsmönnum í kvöld. „Eins og fyrir alla leiki í vetur er þetta 50-50 leikur. Við unnum Val í fyrsta skiptið á útivelli í sögu félagsins á dögunum og við þurfum bara að endurtaka það í kvöld. Við ætlum að vera fastir fyrir í okkar leik og jafnvel fastari en í síðasta leik,” segir Heimir Örn Árnason.