„Þetta er bara um það að bændaiðnaðurinn er ekki búinn að skila sínu. Mjólkin fer öll til MS og ferðaþjónustan er ekki að virka þannig að eina ráðið þeirra er að fara að strippa. Og þeir æfa sig í kirkjunni á Möðruvöllum í að strippa," segir Jón Gunnar Þórðarson, sem er leikstjóri að verkinu.
Hann segir að það sé svolítið skrýtið að vera þarna við Hörgánna. „Þetta er þar sem sagan af djáknanum á Myrká fór fram og ansi skemmtilegt að keyra þarna á hverjum degi frá Akureyri í 20 mínútur. Svo bara mætir maður fullt af bændum og þeir fara úr fötunum," segir Jón Gunnar í samtali við Vísi.
Jón Gunnar segir að bændurnir, sem mynda með sér leikfélag, hafi átt hugmyndina að uppfærslunni. „Bændurnir komu til mín og spurðu hvort ég væri til að setja upp verk með þeim þar sem þeir myndu strippa," segir Jón Gunnar.
Hann segir að bændurnir séu ansi góðir og gangi alla leið. Jón Gunnar segir ekki til um það hvort sýningin sé bönnuð
börnum. „Þetta er ansi skemmtileg sýning en þetta er ekki dónalegt sko," segir Jón Gunnar.
Verkið verður frumsýnt þann 5. mars næstkomandi. „Það er búist við því að þetta geti orðið svolítið
vinsælt svona að skreppa hérna rétt fyrir utan Akureyri í skemmtiferð. Þetta er bara fyndið," segir Jón Gunnar. Í tengslum við
sýninguna ætla bændurnir einnig að gefa út dagatal sem er núna að fara í framleiðslu og verður í sölu á
bensínstöðvum á Norðurlandi. „Ég held að þetta sé kjörið fyrir vinnustaði, sérstaklega kvennastaði," segir Jón
Gunnar í samtali við visir.is