Aðalsteinn Árni hættir sem stjórnarformaður Þekkingarnets Þingeyinga
Á aðalfundi Þekkingarnets Þingeyinga urðu þau tíðindi að Aðalsteinn Árni Baldursson steig úr stóli formanns stjórnar Þekkingarnetsins. Aðalsteinn, eða Kúti okkar, hefur leitt stjórn stofnunarinnar frá stofnun eða í ríflega 20 ár. Þar á undan átti hann meira að segja einnig sæti í stjórn Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga, sem steig fyrstu skref í fullorðinsfræðsluþjónustu í héraðinu, áður en Þekkingarnetið tók þá starfsemi yfir. Aðalsteinn Árni óskaði ekki eftir áframhaldandi kjöri í stjórn á aðalfundi og lagði til að aðrir tækju við sínu hlutverki, þ.m.t. samstarfsfólk úr ranni aðila atvinnulífsins.
Engum dylst að oft hefur þurft að hafa fyrir hlutunum á þróunarferli þessarar stofnunar og stjórnendur þurft að ryðja úr vegi hindrunum af margvíslegu tagi, ekki síst á upphafsárunum. Þessi viðfangsefni hafa útheimt traust bakland í stjórn og þá hefur oft mætt töluvert á stjórnarformanni. Þekkingarnetið hóf starfsemi sína með einum starfsmanni og afmörkuðum verkefnum árið 2003 en hefur sífellt bætt við sig nýjum verkefnum og starfssviðum. Stofnunin er nú í leiðandi hlutverki í klasamstarfi um 50 starfsmanna í þekkingar-, rannsókna- og nýsköpunarstörfum á Stéttinni á Húsavík.
Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnetsins, hefur starfað með Aðalsteini öll þessi ár og færði Aðalsteini Árna á fundinum kærar þakkir fyrir náið samstarf og árangursríkt. Áfram verður þó lögð mikil áhersla á að halda traustu og nánu samstarfi Þekkingarnetsins við stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, þar sem Aðalsteinn Árni situr sem formaður Framsýnar-stéttarfélags.
Það var hac.is sem fyrst sagði frá.