Að vera öðruvísi…

Hjalti Páll Þórarinsson.
Hjalti Páll Þórarinsson.

Hjalti Páll Þórarinsson heldur um áskorendapennann að þessu sinni.

Ég er öðruvísi.  Í það minnsta veit ég ekki um neinn sem er alveg eins og ég. Í fyrstu fannst mér það neikvætt að vera öðruvísi – setja mig til hliðar í samfélaginu – vera ekki “venjulegur”. En þegar ég hugsaði þetta betur, þá komst ég að því að við erum öll öðruvísi. Ekkert okkar er nákvæmlega eins. Og eftir enn frekari umhugsun komst ég að því, að það væri bara allt í lagi að vera öðruvísi. Í raun er það “venjulegt” að vera öðruvísi.

Ég er líka gamaldags. Langyngstur minna systkina ólst ég upp nánast eingöngu með fullorðnu fólki og lærði þeirra hætti og venjur, og mótaðist jafnframt af þeirra viðhorfum og lífssýn. Á lífsleiðinni hefur sjóndeildarhringurinn víkkað og að mörgu leyti hef ég fylgt tíðaranda minnar kynslóðar. En ekki að öllu leyti. Ég er til dæmis algjör risaeðla þegar kemur að snjalltækni, sérstaklega öllum samskiptaforritunum sem notuð eru nú til dags. Ég reyni að fylgjast með og tek að nokkru leyti þátt í þessu öllu saman, en er jafnframt búinn að átta mig á því að ég næ aldrei að læra á þetta allt og langar í raun ekki til þess. Fyrst fannst mér ég vera að játa mig sigraðan fyrir hraða tækninnar og nútímasiðum. En núna er ég kominn að þeirri niðurstöðu að með því að velja sjálfur, á mínum forsendum, hvað af þessu ég nota – þá er sigurinn minn.

Ég er sem sagt bæði gamaldags og öðruvísi, en það er allt í lagi – því það er ég.

Það er mikið talað um í dag að fagna fjölbreytileikanum, jafnrétti fyrir alla og að allir fái sömu tækifæri í lífinu. Sem er af hinu góða og ég er mikill fylgismaður jafnréttis hvarvetna. Það sem fylgir hins vegar þessari umræðu eru óskrifaðar reglur samfélagsins um hvað sé í anda jafnréttis og fjölbreytileika og hvað ekki. Hvað má segja og hvað má ekki segja. Hvað eru fordómar og hvað ekki. Og þessar reglur eru orðnar íþyngjandi. Við erum hætt að þora að tala um hlutina eins og þeir eru, því samfélagið okkar hefur ákveðið að þetta orð eða hitt feli í sér neikvæða mismunun – að fyrrum hlutlæg lýsingarorð feli nú í sér huglæga fordóma.

Þessi orð mín má ekki skilja sem svo að það megi segja hvað sem er, hvernig sem er. Við þurfum auðvitað að vera kurteis. En ég held að það sé fleira túlkað sem fordómar, heldur en það sem í raun  er sett fram í fordómafullri meiningu. Auðvitað eru alltaf dæmi um einstaklinga sem setja fram sleggjudóma og jafnvel dónaskap þegar þeir tjá sínar skoðanir. En ég trúi því að við séum flest ekki þannig og þegar við tjáum skoðun okkar á einhverju feli það ekki sjálfkrafa í sér fordóma.

Og við getum breytt reglunum. Á sama hátt og við sem samfélag samþykktum þessar reglur, getum við breytt þeim. Þannig að ég segi - verum ánægð með að vera öðruvísi, þorum að segja það upphátt og tökum ekki öllum athugasemdum sem fordómum.  Það virkaði í það minnsta vel fyrir mig. Þegar ég fer út á morgnanna til að moka stéttina, þá skelli ég mér í gamla Kraft gallann minn og grænu gúmmístígvélin – alveg eins og í sveitinni heima í gamla daga. Finnst það þægilegra en að fara í fína 66°N gallann minn. Mér er svo hjartanlega sama þótt einhverjum í kringum mig finnist ég asnalegur, eða segi að ég líti út eins og gamall bóndi – ég lít örugglega þannig út. Og það er allt í lagi.  Þetta er mitt val, þetta hentar mér og skemmir ekkert fyrir öðrum.

Verum tillitssöm, kurteis og heiðarleg hvort við annað. Það er allt í lagi að vera öðruvísi og verum ekki viðkvæm fyrir því þótt það sé sagt upphátt. Því munið að við erum jú öll öðruvísi.

Ég ætla að skora á Dagnýju Reykjalín í að skrifa pistil í næsta blað.

-Hjalti Páll Þórarinsson

 


Athugasemdir

Nýjast