Að hlaða okkar eigin batterí

Heiðrún E. Jónsdóttir átti lokaorðin í blaði þessarar viku
Heiðrún E. Jónsdóttir átti lokaorðin í blaði þessarar viku

Samfélagið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Sífellt áreiti bæði í starfi og leik. Það eru ekki bara blessuð börnin sem eiga erfitt að leggja símana og tölvurnar frá sér, við sem eldri erum, erum flest lítið skárri.

Fyrir utan langan vinnudag þá er nýt ég þeirra forréttinda að eiga hrikalega skemmtilega fjölskyldu, vini og vinkonur, sem ég hef stundum fullgaman að því að vera með á góðum stundum. En trúlega vegna þessa áreitis, sem oft er sjálfskaparvíti, þá finn ég oft fyrir þörf fyrir að hlaða batteríin. Ég hef áttað mig á því hvaða týpur eru orkuþjófar og reyni að forðast óþarfa drama. Ég leitast frekar við að vera með fjölskyldu og vinum sem hlaða batteríin og fara út í náttúruna, helst í smá fjallgöngu en einnig hefur sjórinn róandi áhrif.

Góð súrefnisbomba er ómetanleg, maður þarf ekki endilega að fara á hæsta tindinn með ísexi til að taka einhverjar frábærar myndir, til að sjá viðbrögðin á samfélagsmiðlunum, til að hlaða batteríin. Ég tengi þetta við æskuminningar. Annars vegar minningar af því að vera á sjóstöng á Skjálfanda, fyrst með afa Hödda, síðar með Geira frænda. Í minningunni var alltaf stafalogn, sjórinn spegilsléttur og sólskin, ekkert áreiti og ekkert endilega verið að tala of mikið. Þagnir geta verið vanmetnar.

Einnig æskuminningar úr sveitinni, úr Aðaldalnum, þar sem ég átti góðar stundir hjá ömmu Heiðveigu og afa Gesti. Ég var svo sem ekki í miklum fjallgöngu þar, var frekar að drullumalla og bjóða heimilisfólki kökur, skreyttar með hveiti og blómum. Þá tók ég hlutverk mitt sem umsjónarmanns heimalinganna afar alvarlega.

Ég átti smá erfitt með að segja R áður en ég byrjaði í grunnskóla. Föðursystir mín gerir enn grín að því að eitt sinn var ég að reka kusurnar heim í fjós og fannst henni krakkinn ekki bera sig rétt að og fór hún að leiðbeina mér.  Ég sneri mér snúðugt að henni og sagði  ,,Ég vek þæð eins og méð sýnist.”

Strax, áður en ég hóf grunnskólagöngu, þá var ég ekki sérlega móttækileg fyrir leiðbeiningum, gerði þetta eins og mér sýndist. Kusurnar komust þó allar heilar heim, sáttar við smalann.

Það er það helsta af mér að frétta að ég á enn erfitt með að taka leiðbeiningum og á það til að gera hluti eins og mér sýnist en ég kann þó núna að segja R.


Athugasemdir

Nýjast