Að dafna í Eyjafjarðarsveit

Finnur Yngvi Kristinsson.
Finnur Yngvi Kristinsson.

Fyrir hart nær tveimur árum flutti ég inn í ægifagran Eyjafjörðinn og tók mín fyrstu skref sem sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit. Það er skemmst frá því að segja að ég tel það hafa verið mikið heillaskref. Fyrsta daginn á skrifstofunni stóð ég út við gluggann og fann að ég var kominn á góðan stað. Beint fyrir utan skrifstofu mína er frábær lóð Hrafnagilsskóla og þar voru börnin mín þrjú að leik með nýjum vinum ásamt móður sinni í lok skóladags. Samfélagið hafði strax tekið vel á móti fjölskyldunni og það veitti mér ómælda ánægju. Svona hefur þetta nánast verið alla daga síðan, krakkarnir í hverfinu koma og banka og börnin eru þotin út að leika, nálægðin er mikil og fjarlægðirnar eru litlar í snotru Hrafnagilshverfinu.

Eyjafjarðarsveit er samfélag drifið af miklum frumkvöðlakrafti, krafti hjá fólki sem leggur allt sitt í að skapa framtíð fyrir sig og fjölskyldu sína. Samfélagið er af mjög stórum hluta bændasamfélag, samsetning sem ég hafði ekki kynnst áður. Það er mjög gott að búa í slíku samfélagi, ríkur samfélagsandi og samkennd einkennir karakter sveitarfélagsins og því samstaða mikil, maður upplifir það að hver einstaklingur skiptir miklu máli, jafnvel meira máli en í stærri samfélögum þar sem einstaklingurinn hverfur oft inn í hópinn. Hér kynnist maður mörgum framsæknum og vel menntuðum bændum og því hversu vel mörgum hefur tekist að þróa býli sín í einni gjöfulustu sveit landsins. Hér, í nálægði Akureyrar, er hátt um fimmtungur af allri mjólk landsins framleidd. Hér er líka framleiðsla á korni, grænmeti og ís, hér er svínabú, hænsnabú, hrossatækt og fjöldinn allur af fé á beit svo fátt eitt sé nefnt. Sveitin framleiðir einnig töluvert af raforku og heitt vatn fyrir sig og sína góðu granna.

Eyjafjarðarsveit er líklega ein af þéttbyggðari sveitum landsins og hefur hún þróast á þann veg um áraraðir. Það gerir það að verkum að hér búa nokkuð margir, eða um 1.100 manns sem margir hverjir eru í eigin rekstri en hér eru til að mynda um 170 lögbýli sem efla stoðir verslunar og þjónustu í Eyjafirði.

Það er magnað að upplifa þann kraft sem í mannauðnum er og samfélaginu öllu í sveitinni. Þjónustuaðilar í Eyjafjarðarsveit hafa fengið sinn skerf af Covid en allt frá fyrstu fréttum veirunnar snerist umræða þjónustuaðila um það hvernig þeir gætu gefið í frekar en dregið saman seglin. Allir voru meðvitaðir um að óvissutímar væru í vændum en allir stefndu þeir í sömu átt og blésu sjálfir vindi í seglin. Upp spruttu margar skemmtilegar hugmyndir sem nú er unnið með. Risakusa mun rýsa til heiðurs mjólkurframleiðslu svæðisins, Matarstígur Helga magra hefur hlotið verðskuldaða athygli og fjöldinn allur af minni verkefnum hefur skotið upp kollinum í formi sameiginlegs markaðs átaks, myndbandsgerðar ofl. Allt hefur þetta gert að verkum að Eyjafjarðarsveit hefur orðið sýnilegri hjá hinum almenna vegfarenda heldur en undanfarin ár og naut samfélagið allt góðs af því í sumar.

Víða er uppbygging á íbúðarhúsnæði í Eyjafjarðarsveit, bæði í Vaðlaheiðinni og eins í Hrafnagilshverfi og hefur íbúum fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Á stefnunni er að hefjast handa við nýbyggingu fyrir leikskóla á eða við Hrafnagilsskóla og tengja þannig skólastigin tvö sterkari böndum. Hrafnagilsskóli hefur getið á sér gott orð í gegnum tíðina og hefur verið í nútímavæðingu þar sem spjaldtölvur hafa verið innleiddar fyrir nemendur. Íþróttahúsið, sundlaugin og bókasafnið er allt sambyggt skólanum og tónlistaskóli Eyjafjarðar í næsta húsi svo það myndar frábæra heild starfseminnar á svæðinu. Það er líka frábært úrval íþróttastarfs fyrir grunnskólabörn í boði á vegum Samherja sem mest allt fer fram fyrir klukkan 16 á daginn svo börn og foreldrar geta átt meiri stund saman seinnipart dags.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta allt spurning um það hvernig manni líður í lok dags, hvort maður sé sáttur við daginn þegar maður leggst á koddann að kvöldi og hvort fjölskyldan sé ánægð með lífið og tilveruna. Eyjafjarðarsveit tók vel á móti okkur fjölskyldunni og ég finn að við döfnum í Eyjafjarðarsveit, við döfnum í litla fallega hverfinu við Hrafnagil.

Ég skora á Björgu Erlingsdóttur, sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps, að skrifa næsta pistil.

-Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar

 


Nýjast