117. þáttur 12. febrúar 2014

Málfræði, hugsun og heimspeki

Tengsl tungumáls og hugsunar hafa lengi verið málfræðingum og heimspekingum nokkurt umhugsunarefni. Erfitt hefur hins vegar reynst að skýra þessi tengsl. M.a. hafa menn velt vöngum yfir því hvað skapar eða knýr hugsunina áfram og hvort við hugsum í orðum eða í einhvers konar hugarmyndum eða í formum - líkönum. Þá hafa menn velt því fyrir sér, hvort til sé hugsun án orða og hvernig við förum að því að setja orð á hugsanir okkar svo og hvernig tilfinningar, skynjun og umhverfi tengjast máli og málnotkun.

Málfræði er skipt í tvo flokka eftir viðhorfi til efnisins. Annars vegar er forskriftarmálfræði (e normative grammar) og hins vegar lýsandi málfræði (e descriptive grammar). Forskriftarmálfræði hefur að markmiði komast að niðurstöðu og segja fyrir um rétt mál og rétta málnotkun. Lýsandi málfræði hefur hins að markmiði að gera grein fyrir - lýsa - einkennum tungumála án þess að taka afstöðu til þess hvað talist getur rétt mál eða rangt.

Þá skipist málfræði í margar undirgreinar eftir því um hvaða þátt málsins er verið að fjalla. Sú grein málfræðinnar sem rúmfrekust er í beygingarmálum eins og íslensku, er beygingar- og orðmyndunarfræði, þar sem gerð er grein fyrir hvernig orð eru mynduð og hvernig þau beygjast. Önnur undirgrein málfræði er setningafræði sem fjallar um orðaröð og tengsl orða og setninga. Hljóðfræði fjallar um myndun málhljóða en hljóðkerfisfræði um það hvernig málhljóð mynda samstæður - kerfi.

Mikilsverð grein málfræði er merkingarfræði, sem fjallar um merkingu orða og orðhluta, en það er merking orða sem gerir málið að félagslegu tjáningartæki. Enn mætti nefna greinar eins og félagsmálvísindi og mállýskufræði, þar sem kannaður er mismunur á máli mismunandi þjóðfélagshópa og landshluta, og söguleg málfræði fjallar um breytingar á tungumálum, skyldleika þeirra og uppruna. Enn mætti nefna unga grein málfræði eða málvísinda sem kalla mætti merkingarlega textafræði (e pragmatism) þar sem reynt er að kanna mismunandi merkingu orða, orðsambanda og setninga við ólíkar aðstæður.

Að lokum skal nefnd málheimspeki, sem er göfug grein, og fjallar einkum um fjögur meginviðfangsefni: merkingu, notkun tungumáls, málskilning og tengsl tungumáls og veruleikans. Þótt greinin sé ung hafa hugsuðir frá Aristótelesi, Ágústínusi kirkjuföður og Tómasi af Akvínó til heimspekinga samtímans s.s. Russels, Wittgesteins og Chomskys fjallað um merkingu, málskilning og notkun tungumálsins.

Austurríkismaðurinn Ludwig Wittgestein, sem er einn fremsti málvísindamaður síðustu aldar og margir heimspekingar sækja hugmyndir sínar til, fékkst við greiningu á daglegu máli, einkum hlutverkum orða og notkunarsamhengi þeirra. Grundvallarkenning Wittgensteins og fylgismanna hans er sú, að orð hafi merkingu, þegar þau eru notuð á eðlilegan hátt, en séu merkingarleysa þegar þau stangast á við venjulega málnotkun og tungumálið hafi merkingu þegar notkun þess er í samræmi við þær reglur sem um tungumálið gilda. Minnir þessi kenning rökgreiningarheimspekinga, eins og þeir eru kallaðir, á kenningar málræktar- og málverndarmanna um rétt mál og rangt: að rétt mál sé í samræmi við reglur málsins.

Tryggvi Gíslason

tryggvi.gislason@simnet.is


Athugasemdir

Nýjast