Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri var á meðal gesta við opnun varðstofunnar. Hún lýsti ánægju með þetta skref, enda væri um að ræða eðlilega þróun í öryggismálum landsmanna að vera með varðstofur á tveimur stöðum á landinu. Sigrún Björk sagði að menn mættu hafa þetta í huga, þegar rætt væri um hvar eigi að staðsetja björgunarþyrlur landsmanna.
Að sögn Dagnýjar Halldórsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Neyðarlínunnar, er markmiðið að vera með um fimm neyðarverði á Akureyri og verða þeir hrein viðbót við núverandi fjölda starfsmanna. Nú eru fimm neyðarverðir á vakt í Reykjavík að degi til og á álagstímum en þeim fjölgar í sjö þegar varðstofan á Akureyri er fullmönnuð. Varðstofan á Akureyri er tengd öllum okkar fjarskipta- og upplýsingakerfum og starfar með sama hætti og varðstofan fyrir sunnan. Dagný sagði mikið öryggi í því að hafa vel mannaða stöð á Akureyri ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis í Reykjavík. "Við lítum einnig á það sem mikinn kost að hafa fólk á vakt með góða þekkingu á staðháttum og samfélaginu á Akureyri og í nálægum byggðum," segir Dagný. Alls starfa 25 neyðarverðir nú hjá 112. Þeir manna varðstofuna á Akureyri og í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð allan sólarhringinn, árið um kring, og afgreiða um 190 þúsund neyðarsímtöl á ári hverju. Í langflestum tilvikum er óskað eftir aðstoð lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliða.