Við eigum nýja stjórnarskrá!

Harpa Barkardóttir.
Harpa Barkardóttir.

Ég sat nýverið á net-ráðstefnu sem bar heitið « Stökk í átt að sjálfbærni eftir Covid-19 ». Að henni stóðu Loftslagsverkfall, Landvernd og CIRCULAR sjálfbærniráðgjöf. Forstjóri íslenskar erfðagreiningar Kári Stefánsson hóf ráðstefnuna á hugvekju um hvernig skyldi bregðast við breyttri heimsmynd sem við okkur blasir. Litla eyjan í norðrinu þarf að geta staðið í fæturnar sama hvernig vindar blása um heiminn og styrkari innviðir innlendrar matvælaframleiðslu voru Kára hugleiknir, því eins og hann komst að orði þá eru álborgarar með kísil-sósu sérlega tormeltir! Orðheppinn maðurinn hitti hér naglann á höfuðið.

Hann fór ljúflega með lokaorð ráðstefnunnar Andri Snær Magnason og hafði réttilega á orði að vírusinn margumtalaði hafi afhjúpað kerfin okkar. Það er hægt að stöðva hjól atvinnulífsins þrátt fyrir fullyrðingar um hið gagnstæða. Ef ástæðan er nægilega aðkallandi. Hér hafa opnast dyr sem varpa nýju ljósi á þá möguleika og ómöguleika sem við stöndum frammi fyrir.

Fyrir stuttu lögðu þrjár fræðikonur í tveimur löndum fram drög að yfirlýsingu þar sem krafist er breytinga. Konurnar heita Isabelle Ferreras, Dominique Méda og Julie Battilana. Plaggið ber heitið « Vinna. Lýðræðisvæðing, afmarkaðsvæðing, endurreisn » og fjallar í grófum dráttum um að lýðræðisvæða fyrirtæki til að koma í veg fyrir hagnaðardrifnar ákvarðanir sem bera hvorki hag vinnandi fólks né umhverfis fyrir brjósti. Talað er um að afmarkaðsvæða vinnuaflið til að stuðla að mannlegri reisn. Yfir 3000 fræðimenn frá 600 löndum úr ólíkum fræðigreinum skrifuðu undir plaggið og sameinuðust þar um að benda á « leið út úr kófinu » sem vísindasamfélagið styður. Treystum við ekki einmitt á vísindin?

Líkt og Fred Astaire og Ginger Rogers líða saman í dansi uppfullum af reisn og gleði, eru umhverfismál og lýðræði nánir og fallegir dansfélagar. Ef við hlúum að öðru þá hlúum við að hinu. Lýðræðislegar ákvarðanir teknar á breiðum grundvelli eru nefnilega líklegri til að taka mið af hag heildarinnar en ekki hagnaði sem kyndir undir samfélagslegan og efnahagslegan ójöfnuð og gengur á vistkerfi jarðar hraðar en þau geta staðið undir. Í þessu samhengi langar mig að minnast á nýju íslensku stjórnarskrána sem þjóðin samdi og samþykkti svo eftirminnilega með þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Og hefur einhverra hluta vegna strandað í meðförum þingsins. 

Þjóðin er nefnilega hinn réttmæti stjórnarskrárgjafi. Þjóðin á að setja valdhöfum sínum leikreglurnar. Núgildandi stjórnarskrá var samin af Dönum fyrir danskt konungsríki, gefin Íslendingum árið 1874, lítillega aðlöguð að íslenskum aðstæðum 1944. Lítillega! Í kjölfar síðustu kreppu setti Alþingi af stað þá vinnu sem leiddi til þess að hin nýja íslenska stjórnarskrá (sem er yndislestur ykkur að segja!) leit dagsins ljós eftir þúsund manna og kvenna þjóðfund og stórmerkilega vinnu 25 manna og kvenna stjórnlagaþings. Vinnu sem tekið var eftir um allan heim. Talið vera eitt lýðræðislegasta stjórnarskrárferli sem um getur. En nú situr Alþingi um plaggið og ætlar að melta það á eigin forsendum, samþykkja grein fyrir grein, með breytingum sem settar eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Hér er einhver grundvallar misskilningur á ferðinni.

Á sama hátt og krafa vísindamanna nú snýr að lýðræðisvæðingu atvinnulífsins er ný stjórnarskrá nauðsynlegur og ferskur andblær á sviði stjórnmálanna á Íslandi. Þegar við stöndum agndofa frammi fyrir hrópandi mismun á sumargjöfum barna þessa lands er ekki úr vegi að láta sig dreyma um hvernig okkar fólk á þingi myndi njóta góðs af því að hafa í höndum nýja stjórnarskrá, með glæsilegu auðlindaákvæði, aðlagaða að kröfum nútímans, til að byggja upp réttlátara samfélag.

Nú þegar landinn nýtur þess að finna lífið komast í « eðlilegar » skorður aftur eftir kófið með tilheyrandi knúsum og yndislegheitum, skynjum við held ég í sameiningu möguleikana sem eru uppi á borðinu. Breyttar sviðsmyndir í gildis- og lífsgæðamati. Öll döfnum við vel í stöðugleika, en óstöðugleiki og áskoranir auka á styrk og þroska og auðga okkur ef þær ganga okkur ekki of nærri. Höfum hugrekki til að starfa saman, frjáls í anda, að því að eiga uppbyggilegt samtal við og um framtíðina. Drögum ekki í efa mátt okkar og megin til að standa saman og starfa saman. Það er grunnurinn að öllum breytingum og byltingum mannkynssögunnar. Hlúum að sammannlegum gildum, það er svo margt sem helst í hendur þegar við látum okkur málin varða af heilum hug og hjarta.  

Svona hljóða aðfaraorð nýju íslensku stjórnarskrárinnar:

(hana má verða sér úti um í næstu bókabúð)

“Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.”

Ég skora á vin minn Stefán Tryggva- og Sigríðarson, landmótanda með meiru, að skrifa næstu grein.

-Harpa Barkardóttir, ferðaskrifstofueigandi og formaður samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN.


Nýjast