Þitt álit skiptir máli

Við bjóðum þér að hitta frambjóðendur Sjálfstæðsflokksins til að ræða málefni sveitarfélagsins, árangur á kjörtímabilinu sem senn lýkur og hvað sem þér liggur á hjarta um hvernig við getum bætt samfélagið í sameiningu. Við erum með opið hús í Nausti (húsnæði Björgunarsveitarinnar Garðars) á Húsavík alla laugardaga kl. 10:30-12:00. Þar gefst tækifæri til að hitta frambjóðendur Sjálfstæðisfélaganna í Norðurþingi í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Frambjóðendur

Meðalaldur frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi er 41,5 ár. Það eru meiri lýkur á að frambjóðandinn sé fæddur að vori og búi í þéttbýli. Við erum þó langt frá því að vera einsleitur hópur. Yngsti frambjóðandinn verður 29 ára á árinu og rekur eigið fyrirtæki og sá elsti 94 ára og stundaði farsælan rekstur eigin fyrirtækis í áratugi. Hópurinn býr yfir fjölbreyttri reynslu úr atvinnulífinu, af rekstri eigin fyrirtækja, störfum hjá einkaaðilum sem og í opinberri þjónustu.

Framboð Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar skipar fólk sem hefur reynslu af því að starfa í nefndum sveitarfélagsins. Af sex efstu sem skipa listann hafa fimm verið fulltrúar í sveitarstjórn á yfirstandandi kjörtímabili, ýmist allt kjörtímabilið eða til skemmri tíma. Þá hafa sjö af tíu efstu frambjóðendum listans verið í fastanefndum sveitarfélagsins eða stjórn Orkuveitu Húsavíkur og flokkurinn átt formann byggðarráðs, fjölskylduráðs og stjórnar Orkuveitunnar á kjörtímabilinu auk varaformanns skipulags- og framkvæmdaráðs.

Úr stefnuskrá

Fyrir síðustu kosningar setti Sjálfstæðisflokkur fram afar metnaðarfulla stefnuskrá. Stór hluti hennar rataði í málefnasamning meirihluta sveitarstjórnar. Flest af því hefur þegar komist til framkvæmda eða er í farvegi. Þar má meðal annars nefna:

• að öllum börnum stendur til boða hafragrautur og ávaxtastund í grunnskólum sveitarfélagsins,

• bygginu íbúðakjarna fyrir fatlaða er lokið,

• fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði hefur verið lækkaður úr 0,575% í 0,45%,

• frístundastyrkir barna hafa verið hækkaðir úr 6.000 kr. í 17.500 kr.,

• þjónusta dráttarbáts við Húsavíkurhöfn var tryggð,

• verkefnunum Raufarhöfn og framtíðin og Öxarfjörður í sókn var fylgt eftir með ráðningu starfsmanna eftir að verkefnunum lauk formlega.

Rekstur

Rekstur sveitarfélagsins hefur gengið nokkuð vel á kjörtímabilinu í þeim áskorunum sem fylgdu COVID-19. Skuldaviðmið A og B hluta hefur lækkað úr 94% í 77% , langtímaskuldbindingar sveitarfélagsins við lánastofnanir hafa verið greiddar niður um 600 mkr. og vaxtagjöld hafa lækkað úr 78 mkr. á ári í 56 mkr. á sama tíma og fjárfest hefur verið fyrir tæplega 1.8 milljarða kr. samtals í A og B-hluta.

Framtíðin

Handan kosninga bíða ótal verkefni kjörinna fulltrúa. Þó nokkur eru farin af stað og þarf að fylgja eftir til enda eins og nýrri aðstöðu frístundar og félagsmiðstöðvar barna og unglinga og uppbyggingu grænna iðngarða á Bakka. Á meðan öðrum verður ýtt úr vör, eins og hvert verður hlutverk Hvamms þegar nýtt hjúkrunarheimili verður tekið í notkun og hvernig verður uppbyggingu fiskeldis á Kópaskeri og í Öxarfirði best fylgt eftir.

Þessa dagana vinna frambjóðendur að stefnuskrá framboðsins. Okkur langar að heyra frá íbúum hvað brennur á þeim fyrir komandi kostningar því álit þitt skiptir okkur máli.

Endilega kíktu í kaffi!

Hafrún Olgeirsdóttir, 1. sæti á lista Sjálfstæðiflokksins í Norðurþingi.

Helena Eydís Ingólfsdóttir, 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi.

 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast