Taktu þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins um helgina

Njáll Trausti.
Njáll Trausti.

Laugardaginn 29. maí verður haldið prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi vegna Alþingskosninganna 25. september nk.  Ég gef kost á mér í 1. sæti á lista flokksins og bið um stuðning til að leiða kosningabaráttu flokksins næstu 17. vikurnar. 

Hver er ég?

Ég hef setið á Alþingi fyrir kjördæmið frá árinu 2016.  Þar hef ég talað fyrir um gildum og frelsissýn sjálfstæðisstefnunnar. Í þingstörfum hef ég talað fyrir frelsi og einkarekstri gegn oftrú ríkisrekstrar og sífellt sterkara miðstjórnarvaldi, eftirliti og aukinni skattlagningu. Ég hef látið til mín taka á vettvangi atvinnu- og samgöngubóta, en ekki síst í málum er varða byggðamál og byggðafestu. Lengstum setið í fjárlaganefnd og atvinnuveganefnd þingsins og er nú varaformaður utanríkismálanefndar og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins. Verið í mjög virku sambandi við kjósendur Norðausturkjördæms og víðar.

Sex baráttumál

Ég hef haldið á lofti ýmsum baráttumálum fyrir norðausturkjördæmi. Þau byggi á þeirri trú að hagsmunir allra séu að landsbyggðinni vegni vel. Sent frá mér tugi blaðagreina, ótal fjölmiðlaviðtöl og fundir farið yfir þessi baráttumál á fundum. Fyrir Norðurland rísa hæst:

 

1.     Krafa um lagningu nýs Kjalvegar. Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir landsbyggðina. Nýr Kjalvegur eykur öryggi, umhverfisvernd, uppbyggingu og efnahag nærsamfélaga með tengingu landshluta. Hagsæld fólks fer saman við skynsamlega nýtingu og vernd umhverfis. Með honum yrði byggður nýr öxull íslenskrar ferðaþjónustu: Að Gullfoss - Akureyri verði 218 km. leið segir margt.

 

2.  Ég hef talað fyrir markvissri uppbyggingu orkumannvirkja, auknu orkuöryggi, og skilvirkara flutningskerfi raforku. Það kann að vera  „ófjölmiðlavæn umræða“ en mikilvæg fyrir okkar landshluta. Fram undan eru stór tækifæri í loftslagsvænum fjárfestingum. Vilji Ísland ná alþjóðlegum markmiðum um losun gróðurhúsalofttegunda er nærtækast að þróa og nýta græna orkugjafa. En til þess þyrfti að byggja mun traustara flutningskerfi raforku og aðra innviði á norðausturhorninu.

 

3.    Ég leiddi umræðu um að taka upp „skosku leiðina“ fyrir landsbyggðina sem í dag er kölluð Loftbrú. Nú tala fáir gegn henni, en  umræða um skosku leiðina mætti mótbyr. Tillögur um loftbrúna sagðar óraunhæfar og vart mótaðar til framtíðar. Það hefur reynst alrangt. Ungt landsbyggðarfólk sem nýtir Loftbrúna ber vitni um það.

 

4.  Ég hef margítrekað skoðun mína að skynsamlegt væri og í anda opinberrar stefnumörkunar, sjálfbærni og byggðafestu að byggja upp leitar- og björgunarhæfni á norðurslóðum við Eyjafjörð. Þar ætti að staðsetja sjúkra- og björgunarþyrlu. Fyrir er sterkur norðurslóðaklasi og nauðsynlegir innviðir slíkrar starfsemi. Björgunarklasinn á heima með miðstöð læknisfræðilegar þjónustu sjúkraflugs í landinu og Sjúkraflutningaskóla Íslands við Sjúkrahúsið á Akureyri. Á flugvellinum starfa flugvirkjar og viðhaldsþjónusta fyrir þyrlur.

 

5.    Ég hef staðið þétt við uppbyggingu Norðurslóðamiðstöðvar á Akureyri sem á rætur í sterkum þekkingarklasa um norðurslóðamál, sem saman stendur af skrifstofum á vegum Norðurskautsráðsins, stofnunum og fyrirtækjum. Norðurslóðamiðstöð Íslands á Akureyri styrkir stöðu Eyjafjarðar til langrar framtíðar um leið og verkefnið laðar fólk til bæjarins í margvíslegum tilgangi, hvort sem er vísindastarfs, ráðstefnuhalds eða annars atgerfis.

 

6.  Við  skyldum standa vörð um uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri. Ljúka byggingu nýrrar legudeildarálmu; styrkja hlutverk þess sem miðstöð læknisfræðilegar þjónustu sjúkraflugs í landinu; komum á hjartaþræðingum; styðja þróun og notkun fjarheilbrigðisþjónustu; og gera sjúkrahúsið að háskólasjúkrahúsi.

Prófkjörið upptaktur að kosningabaráttunni

Í prófkjörinu eigum við þess kost að velja á milli mjög öflugra frambjóðenda víða að úr kjördæminu. Stolt mitt er að tilheyra þeim góða hópi. 

Á fundum og ferðum um kjördæmið síðustu mánuði hef ég minnt á að prófkjörið verði að vera upptaktur farsællar kosningabaráttu, enda einungis 17 vikur til alþingiskosninga. Með öflugu prófkjöri stillum við upp lista sem laðar að sér ólíkt fólk með fjölbreyttan bakgrunn til samstarfs úr öllu kjördæminu. Slíkur framboðslisti og öflugt umboð úr prófkjöri gefur skýr fyrirheit um forystu í kjördæminu.

Fjölmenn og víðtæk þátttaka í prófkjöri er sterkur meðvindur fyrir þann framboðslista sem Sjálfstæðisflokkurinn býður fram í kjördæminu í haust. Þann lista vil ég leiða og hvet til þátttöku í prófkjöriunu. Taktu þátt í að stilla upp lista Sjálfstæðisflokksins.

-Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Norðausturkjördæmis.

 

 


Athugasemdir

Nýjast