Takk Norðurorka

Helga Dögg Sverrisdóttir.
Helga Dögg Sverrisdóttir.

Norðurorka er eitt fyrirtækja sem veitir samfélagsstyrki. Undirrituð er ein þeirra sem naut velvildar fyrirtækisins í ár. Þegar ég tók á móti styrknum varð mér ljóst hve margir vinna gott starf af ýmsum toga. Allt áhugavert. Til hamingju allir sem fengu styrk. Starfsmenn Norðurorku hafa án efa átt erfitt með að velja úr mögum áhugaverðum verkefnum. Undirrituð fékk styrk til að framkvæma könnun á áhugasvið drengja á miðstigi í grunnskólum Akureyrar.

Hér er um könnun að ræða ekki rannsókn, gott að halda því til haga. Könnun sem við í skólasamfélaginu getum vonandi nýtt okkur til að þróa og breyta innan grunnskólans teljum við þörf á því í ljósi upplýsinga sem koma fram í könnuninni.

Áhuginn kviknar

Sú umræða sem hefur átt sér stað um stöðu drengja vakti áhuga minn. Umræðan hefur verið á þann veg að námið og kennsluhættirnir höfði ekki til hluta drengja í skólakerfinu. Bent hefur verið á mikla notkun hegðunarlyfja sem ávísað er á drengi. Talið er að of margir drengir lesi sér ekki til gagns að loknum grunnskóla. Sagt er að drengir fari á flug í námi undir lok framhaldsskólans enda þá komnir inn á áhugasvið sitt. Er ekki svolítið seint, eftir að hafa verið í leik- og grunnskóla, að komast á flug undir lok náms í framhaldsskóla? Því verður hver og einn að svara.

Engin ein leið er rétt til að rétta hlut drengja en sem samfélag ber okkur skylda að skoða leiðir til að breyta innan grunnskólans fyrir þá sem þar stunda nám.

Könnun hafin

Þegar þetta er skrifað hefur hluti drengja í skólunum svarað könnuninni. Farið var eftir formlegum leiðum og foreldrar gátu hafnað þátttöku barnsins. Gerðu þeir það ekki var litið á það sem samþykki. Könnunin er ekki rekjanleg til þátttakenda enda um nafnlausa könnun að ræða.

Í könnuninni er spurt hvort drengir hafi áhuga á valgreinum á miðstigi og þá hvaða. Kannað er hvort þeir vilji meiri hreyfingu í skólanum. Kannað er hvaða þrjár námsgreinar eru skemmtilegar sem nú þegar eru kenndar. Spurt er um hvaða námsgrein þeir myndu vilja inn sem er ekki kennd. Spurt er um lestur og hve oft þeir lesa. Spurt er um líðan þeirra í skólanum, heimanám og fleiri í þá veru. Þegar könnuninni lýkur verða henni gerð nánari skil eins og segir í umsókninni til Norðurorku með það að markmiði að benda á þætti sem hugsanlega mætti efla í skólastarfi.

Hvað svo

Margar kannanir eru gerðar á hverju ári um allt mögulegt. Sammerkt með mörgum þeirra er að upplýsingum er safnað án þess að brugðist sé við því sem betur má fara. Könnunina um áhugasvið drengja í skólum bæjarins er hægt að nota til skólaþróunar.

Nú þegar er slík skólaþróun í gangi í Síðuskóla og segja má að umræðan um stöðu drengja hafi átt sinn þátt í því. Verið er að skoða hvort bjóða eigi upp á valgreinar eftir páska í tilraunaskyni. Með samhentum hópi starfsmanna og stjórnenda skólans er það framkvæmanlegt. Gefist þessi tilraun vel munu viðeigandi aðilar skoða hvort bjóða eigi nemendum í 5. -7. bekk valgreinar á næsta skólaári.

Enn og aftur, takk Norðurorka að styrkja verkefnið, án þess hefði það ekki farið af stað.

-Helga Dögg Sverrisdóttir grunnskólakennari í Síðuskóla.


Athugasemdir

Nýjast