Styðjum við öflugt íþróttastarf

Hafrún Olgeirsdóttir.
Hafrún Olgeirsdóttir.

Hafrún Olgeirsdóttir skrifar

Svör við grein framkvæmdastjóra Völsungs sem birtist í Vikublaðinu þann 4.maí sl.

Ég vil hefja skrif mín á því að þakka framkvæmdastjóra Völsungs fyrir að vekja athygli á málaflokknum í aðdraganda kosninga. Þátttaka í íþróttastarfi hefur margvísleg áhrif, m.a. á líkamlega og andlega líðan. Í gegnum íþróttastarf þroska iðkendur líka með sér margskonar eiginleika og færni eins og að takast á við sigra og töp, vinna í hópi, setja sér markmið, virða skoðanir og fara eftir reglum sem endurspeglast svo í framkomu og vinnusemi í skóla, vinnu og almennri þátttöku í samfélaginu.

En að spurningum framkvæmdastjóra Völsungs.

Sjálfstæðisflokkurinn er hlynntur því að mótuð verða stefna í íþrótta- og æskulýðsmálum. Afstaðan birtist meðal annars í því að fulltrúi flokksins lagði til á kjörtímabilinu sem er að ljúka að unnin yrði þarfagreining vegna uppbyggingar og viðhalds íþróttamannvirkja og að jafnframt setti sveitarfélagið sér stefnu varðandi íþrótta- og tómstundastarf og aðkomu sveitarfélagsins að því. (Sjá nánar í fundargerð sveitarstjórnar frá 19. febrúar 2019).

Tillagan var samþykkt samhljóða og unnin var þarfagreining sem markaði upphaf þessarar vinnu en líkt og kemur fram í metnaðarfullri og raunsærri stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins viljum við hefja að nýju þessa vinnu og setja fram stefnu og aðgerðaáætlun um uppbyggingu á íþrótta- og tómstundaaðstöðu til framtíðar.

Áherslur okkar í íþrótta- og æskulýðsmálum koma skýrt fram í stefnuskrá okkar í eftirfarandi atriðum:

  • Frístundastyrkur barna verði hækkaður í 30.000 kr. á kjörtímabilinu til að jafna tækifæri þeirra til þáttöku í íþrótta- og tómstundastarfi.
  • Áfram unnið að uppbyggingu skíðasvæðis á Reyðarárhnjúk til samræmis við hönnun á svæðinu sem er í gangi. Tryggja þarf húsnæði undir vélar á svæðinu.
  • Áfram verði stutt við starfsemi íþróttafélaga innan sveitarfélagsins.
  • Á kjörtímabilinu verði lokið við betrumbætur á leikvöllum sveitarfélagsins með það til hliðsjónar að þeir verði betur tækjum búnir en þeim að sama skapi fækkað.
  • Hafin verði að nýju þarfagreining fyrir íþrótta og tómstundaaðstöðu í sveitarfélaginu og sett fram stefna og aðgerðaáætlun um uppbyggingu á íþrótta- og tómstundaaðstöðu til framtíðar.
  • Skipuð verður afmælisnefnd vegna 100 ára afmælis Völsungs 12. apríl 2027, sem mun safna saman hugmyndum, útfæra og gera tillögu að afmælisgjöf Norðurþings til félagsins.

Varðandi knattspyrnuvellina, rekstur og umhirðu þeirra, þá ber sveitarfélagið ábyrgð á öllum sínum eignum og ber að viðhalda þeim. Þann 2. maí sl. komst fjölskylduráð Norðurþings að þeirri niðurstöðu að sveitarfélagið sæi um rekstur knattspyrnuvallanna í sumar eftir samtal við Völsung. Unnið er að ráðningu starfsfólks til að sinna þeirri vinnu í sumar. Meðal verkefna verður að sjá til þess að daglegum rekstri vallarins verði sinnt, svosem sláttur og umhirða á grasi og hreinsun og tiltekt á útisvæði. Það á bæði við um vellina sjálfa og svæðið þar um kring. Það er hagur allra aðila að svæðið líti þannig út að sómi sé af og hægt sé að nýta svæðið í þeim tilgangi sem því var ætlað.

Við erum þeirrar skoðunar að gildi íþrótta í nútímasamfélagi er mikið. Að framansögðu má draga þá ályktun að þeim fjármunum sem varið er til íþróttastarfsins sé vel varið þar sem líkur eru á því að þeir skili sér til baka í bættri andlegri og líkamlegri heilsu.

Allir í gallana!

Hafrún Olgeirsdóttir

Oddviti D-lista


Athugasemdir

Nýjast