Skólar fyrir kerfin eða skólastarf fyrir börn?

Kristrún Lind Birgisdóttir.
Kristrún Lind Birgisdóttir.

Ég er uppalin í grunnskólanum á Árskógsströnd, fyrst í kennaraíbúðinni sem var partur af skólahúsnæðinu sjálfu og síðar í skólastjórabústaðnum sem byggður var handan við hornið. Ein af mínu fyrstu minningum er þegar það er “opið á milli” og krítaranganinn berst inn í íbúðina, krakkarnir skvaldra og einhver fullorðinn sér um kennsluna. Pabbi stýrði skólanum og mamma skúraði og hugsaði um okkur krakkana, skýr kynjahlutverk sem tíðkaðist í þá daga fyrir tæpum 50 árum síðan.

Almanaksárið í mínum huga hefur alltaf verið skólaárið. Á haustin byrjaði gamanið og brakandi nýjar bækurnar og spennandi námsgögn streymdu heim að húsinu þegar hausta tók. Við systkinin tókum þátt í því að taka upp úr kössunum og plasta bækurnar vandlega og líma útleiguvasana inn í bókasafnsbækurnar. Bókasafnið var á stærð við svefnherbergið mitt og þar var að finna þann fróðleik sem ég hafði aðgang að sem barn. 

Þegar að jólin færðust nær fór pabbi upp á háaloft að sækja jólaskrautskassana og jólatrésfótinn og undirbúa litlu jólin. Þannig gegnu hlutirnir fyrir sig og við tókum þátt í að skipuleggja hvern þráð af skólastarfinu. Það kom sennilega engum á óvart að ég skildi leggja fyrir mig kennslu - kannski datt mér ekkert annað í hug en í það minnsta vissi ég að ég þekkti hvern þráð í skólastarfinu og yrði á heimavelli hvar sem ég myndi drepa niður fæti. 

Skólastarf hefur lítið breyst í gegnum tíðina á Íslandi. Formið er það sama og langflest börn detta inn í líkamsklukku skólakerfis sem er um það bil tvö hundruð ára gömul. Það hafa fáar tilraunir verið gerðar á Íslandi með annað form af skólastarfi, einhverjir muna eftir hugmyndum um opinn skóla sem lifðu lengst til dæmis á Kópaskeri og við Grundarskóla á Akranesi en stofnanavæðingin var í rauninni sú sama. Reyndar var það þannig að þegar mamma mín var á grunnskólaaldri ferðaðist kennari á milli bæja í Þistilfirðinum og krakkar af nærliggjandi bæjum söfnuðust saman á bænum í einhverjar vikur og fengu kennslu, þannig færðist skólinn á milli bæja. Þeir nemendur sem áttu heima á bænum sem kennslan fór fram á fengu þannig að vera heima hjá sér á meðan á farskólatímabilinu stóð. Fljótlega færðist farskólaformið inn í hefðbundnar skólastofur. 

Formið hefur nánast alltaf verið með mjög svipuðu móti þótt skóladögum hafi fjölgað og tíminn sem börnin eyða innan stofnanna lengst og lengst. Sveitarfélögin og Kennarasambandið ákveða mest um hvenær skólaárið hefst og hversu margir dagar skulu vera undir, í dag eru þetta 180 skóladagar sem hvert grunnskólabarn skal sækja skólann. Skólastarf hefst að hausti og lýkur í maí eða byrjun júní sem fer eftir því hvernig 180 dagarnir raðast og hvort starfsfólkið og fræðslunefndinar ákveða að haldin séu haustfrí eða vetrarfrí á skólaárinu eða ekki.

Öll kerfi eru mannana verk. Getur verið að það séu til önnur form af skólastarfi sem henta fjölskyldum betur? Getur verið að við getum fundið fleiri leiðir og fjölbreyttari sem þjóna breiðari hópi? Getur verið að það geti hentað sumum fjölskyldum að skólaárið sé fljótandi eða að börnin stundi námið heima eða hvar sem fjölskyldan kýs að dvelja til lengri eða skemmri tíma? Getur verið að samræmd aðalnámskrá og skólabókarkennsla sé orðið algjörlega úrelt. Í dag eru bókasöfn heimsins við fingurgóma lang flestra og þar er að finna fróðleik og upplýsingar sem myndu sprengja af sér litla bókasafnið í Árskógarskóla milljarðafalt. Leiðirnar að námi eru eins margar og við erum mörg. Í dag á lögum samkvæmt samræma skólastarf að börnum en ekki öfugt.

Ég skora á Önnu Hildi Guðmundsdótturm áfengis og vímuefnaráðgjafa hjá Akureyrarbæ, í að skrifa næsta pistil.

-Kristrún Lind Birgisdóttir  - Skólastjóri Ásgarðs - skóla í skýjunum

 


Athugasemdir

Nýjast