Rýmisgreind kvenna

Svavar Alfreð Jónsson.
Svavar Alfreð Jónsson.

Það er rannsóknarefni hversu fjölbreytilegum varningi konum tekst að troða í handtöskurnar sínar. Ég fyllist alltaf aðdáun þegar ég er beðinn að sækja eitthvað ofan í tösku konunnar minnar og les mig í gegnum allt úrvalið þar þótt taskan virki hvorki úttroðin né þung þegar konan mín smeygir henni upp á handlegginn á sér.

Nýlega var ég beðinn að setja vetrardekkin undir litla sæta frúarbílinn. Þegar ég opnaði skottið var það sneisafullt af allskonar dóti. Augun í mér stækkuðu eftir því sem ég hreinsaði meira út úr farangursrýminu sem er svo agnarsmátt að ef manni dytti i hug að bregða sér í útilegu á þessum bíl stæði valið á milli þess að taka með sér svefnpokann EÐA bjórkippuna.

Meðal þess sem ég tíndi upp úr skottinu var útivistarfatnaður, strigaskór, rúðusköfur, sópur, þrjár lausblaðamöppur, bunki af tímaritum, fimm bækur, tágakarfa, hálfétið súkkulaðistykki, nokkrar plastflöskur, tyggjópakki, tíu geisladiskar og göngustafir. Þegar neðar dró var ég auðsjáanlega kominn nær mér í tíma því þar kom í ljós berjatína með sölnuðu lyngi og ljómandi fallegt jólaskraut.

Undir öllum þessum vörubirgðum lá síðan dökk flík, snyrtilega samanbrotin. Þegar ég hóf hana upp til að virða hana fyrir mér reyndist þar um að ræða gamla og slitna en alls ekki ósnotra prestshempu.

 


Nýjast