Reiðhjólakappinn

Guðni Hermannsson.
Guðni Hermannsson.

Í tilefni hins magnaða hjólaæðis sem heltekur landann þessi missirin er hér ein gömul hjólasaga. Að minnsta kosti einu sinni á æfinni eru allir ungir og vitlausir og einn af mörgum fylgifiskum þess er sá að hlusta ekki á sér eldri og reyndari. Ekki síst þegar farið er út að hjóla.

Ég var eitt sinn sem oftar að hjóla á reiðhjóli heima á Grenivík. Sirka 12 ára tappinn. Allt í einu fékk ég þá stórgóðu hugmynd, að mér fannst, að prófa að hjóla með krosslagðar hendur á stýrinu. Ég var að hjóla norður Akurbakkaveginn á leið í heimsókn til afa og ömmu í Sunnuhvoli og næsta beygja sem ég þurfti að taka var til hægri. Ég var á eins miklum hraða og mér var unnt, vegna þess að það var brekka framundan eftir beygjuna og ég var fyrir löngu búinn að læra, með nokkrum áföllum þó, (sem er efni í aðra frásögn) á hve miklum hraða hægt væri að ná vinkilbeygjunni í gegnum Sunnuhvolshliðið og áfram upp heimreiðina.

Nema hvað, þegar vitið mitt og ég ákváðum að beygja til hægri inn á heimreiðina í Sunnuhvol og við sögðum hægri hendinni að toga stýrið aftur og þar með að snúa dekkinu til hægri og þeirri vinstri að ýta stýrinu fram á við um leið þá gerðist það auðvitað þannig, eða þannig, hendurnar báðar gerðu auðvitað það sem þeim var uppálagt. Hægri hendin togaði og sú vinstri ýtti. Það var ekki þeim að kenna að ég og vitið mitt höfðum lagt þeim fyrir svona heimskulegt handarvik sem felst í því að krossleggja hendur á stýri. Ég hjólaði hratt og örugglega beint á ská út af veginum vinstra megin, fram af allháum kanti, niður töluverða brekku, inn á og yfir veginn þar fyrir neðan. Munaði minnstu að ég lenti fyrir þeim báðum, vörubílstjóranum Gamla Jóni og Skaníu vörubifreiðinni sem hann ók þarna um veginn á sama tíma.

En bæði hjólið og ég sluppum naumlega bæði við vörubílinn og Jón. Hraðinn jókst og jókst, ég hentist áfram, stjórnlaust og hreinlega í loftköstum, enn með krosslagðar hendur á stýrinu og stefndi fram af fimmtíu metra háum þverhníptum Akurhólnum og þar fyrir neðan var bara fjaran og sjórinn og Hrísey. Það var meira en fullt verkefni að halda jafnvæginu. Heilinn var farinn í frí eða helfrosinn þótt sól væri og hiti í lofti. Það var enda hásumar og langt til jóla. Vitið kom ekki með nein bjargráð.

Eins og stundum áður var það á endanum utanaðkomandi hjálp sem bjargaði mér og vitinu mínu frá frekara óviti. Í þetta sinn kom hjálpin óbeint frá kartöflubóndanum Binna Sig sem af mikilli framsýni, þótt það hafi auðvitað ekki verið beinlínis mín vegna, hafði sett í geymslu þarna framundir blábrún Akurhólsins gamla síldarnót sem ekki var notuð lengur til veiða heldur var ætluð til þess að breiða yfir kartöflugarða úti á Svínárnesi. Ég sem sagt var svo stálheppinn að hjóla beint inn í netabinginn sem flæktist umsvifalaust bæði í mér og í hjólinu og stoppaði mig snarlega um það bil sem ég var að fljúga fram af bakkanum út í tómið og þaðan niður í fjöru.

Af hverju bremsaðir þú ekki spyrjið þið sjálfsagt. Eðlileg og rökrétt spurning. Ég hef oft spurt mig þessarar spurningar, líklegasta skýringin er sú að allt þetta ferðalag gerðist á þvílíkri örskotsstund að vitið í mér og ég réðum bara ekki við meira en að reyna að halda jafnvæginu. Reiknivél heilans var ekki nægilega hraðvirk. Þetta getur líka legið í því að það gerist stundum að vitglóra manns og maðurinn sjálfur eru ekki í sama liði, sem verður þá til þess sem svo oft gerist meðal (karl)manna að grípa ekki til þeirra ráða sem augljósust eru hverju sinni. Sem í þessu tilfelli hefði auðvitað verið að stíga á bremsuna.

Þar sem ég skreið um og reyndi að losa mig og hjólið úr síldarnótinni minntist ég þess að Haukur frændi í Dal, sem var nokkrum árum eldri en ég og mikill hjólakappi hafði sagt mér nokkru áður að það væri bara alveg ómögulegt að hjóla með þessum hætti sem ég hafði nú reynt og staðfest. Hefði betur farið eftir því sem hann sagði. Hann hafði enda reynt þetta sjálfur á eigin skinni niður stórgrýttar brekkurnar frá Dal. Það borgar sig oft að hlusta á sér eldri og reyndari. Ofan í kaupið týndi ég uppáhaldshúfunni minni einhversstaðar í þessari bjánaför, það þótti mér verst af öllu enda var þetta þykk og mikil húfa, ígildi hjálms hreinlega.

Ef ekki ekki hefði verið fyrir gamalt og úr sér gengið veiðarfæri sem ég hjólaði inní sumarið 1973 hefði þessi saga aldrei komist í Vikublaðið í nóvember 2020, allavega ekki með þessum endi, og alls ekki  verið skrifuð af mér. Minnir okkur á að stundin núna er eina stundin sem við höfum vísa til að njóta og segja frá. Um að gera að njóta stundarinnar og nýta hana alltaf eftir bestu getu. Ég skora á Björn Ingólfsson fyrrum skólastjóra á Grenivík að koma með næsta pistil.

-Guðni Hermannsson

 


Nýjast