Óþekkjanlegur

Svavar Alfreð Jónsson.
Svavar Alfreð Jónsson.

Ekki er ég tiltakanlega mannglöggur og sá næmleiki hefur ekki skánað eftir að fólk fór að ganga með andlitsgrímur. Iðulega hef ég komist í í vandræði þegar ég hitti fólk á förnum vegi sem heilsar mér hlýlega og gefur sig á tal við mig. Stundum höfum við spjallað dágóða stund áður en þokunni léttir og ég geri mér grein fyrir hver viðmælandi minn er.  

Oft er þokan viðvarandi. 

„Hver var þetta?“ spyr konan mín þá gjarnan stríðnislega þegar hún sér á mér aulasvipinn. Til að fólk haldi ekki að ég sé svo merkilegur með mig að ég vilji ekki kannast við hvern sem er tek ég enga sénsa og heilsa fólki afar hlýlega finnist mér að ég gæti hugsanlega þekkt það. 

Eitt sinn vorum við hjónin í verslunarferð þegar ég sá stórglæsilega konu sem kom mér það kunnuglega fyrir sjónir að ég heilsaði henni allinnvirðulega. Konan virti mig fyrir sér dágóða stund og virtist ekki kannast við mig en sagði síðan brosandi: 

„Já, þetta ert þú, ég þekkti þig ekki svona í fötunum.“ 

Þá kom mjög einkennilegur svipur á eiginkonu mína sem hvarf ekki fyrr en upplýstist að ég hafði nýlega skírt ömmubarn konunnar - og ekki verið borgaralega klæddur við það tækifæri. 

 


Nýjast