Öryggi á netmiðlum og fræðsla um stafrænt kynferðisofbeldi

Alfa Jóhannsdóttir er forvarnarfulltrúi á þróunar- og alþjóðasviði hjá Sambandi íslenskra sveitarfél…
Alfa Jóhannsdóttir er forvarnarfulltrúi á þróunar- og alþjóðasviði hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Silja Rún Reynisdóttir er lögreglumaður og forvarnarfulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Ríkislögreglustjóri vinnur nú að aðgerðum gegn stafrænu ofbeldi gagnvart börnum í samræmi við samkomulag þess efnis við ráðuneyti félags- og dómsmála.

Meðal verkefna er vitundarvakning og aukin fræðsla meðal ungmenna í grunnskóla um stafrænt ofbeldi og mikilvægi samþykkis í stafrænum og kynferðislegum samskiptum. Fræðslan er talin mikilvæg en ungmenni í dag alast að miklu leyti upp í stafrænum heimi þar sem  samfélagsmiðlar spila stórt hlutverk í lífi flestra.

Rannsókn UNICEF frá árinu 2019 sýnir að rúmlega 16% barna hafa orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Í 9.-10. bekk hafa 8% stúlkna og 4% drengja orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu einstaklings sem er ekki orðinn fullorðinn og þegar horft er til stafræns ofbeldis þá kemur fram í könnun Fjölmiðlanefndar 2021 að 23,9% kvenna á aldrinum 15-17 ára hafa verið þvingaðar til myndsendinga og 17,9% hafa lent í myndbirtingu gegn vilja sínum.

Farin er af stað vinna sem felur í sér að lögreglumenn innan umdæma lögreglunnar á Norðurlandi eystra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunnar á Suðurlandi og lögreglunnar á Suðurnesjum, heimsækja skóla á þeirra svæðum og fræði nemendur í 8. bekk. Fræðslan er í formi myndbands þar sem fjallað er um stafrænt ofbeldi, afleiðingar þess og mögulegar fyrirbyggjandi aðgerðir. Nemendur munu einnig hitta lögreglumenn og fá þar tækifæri til að spjalla og spyrja spurninga.

Lögreglan mun einnig kynna nýja útgáfu af 112 appinu (smáforriti) og verða kennarar og nemendur hvattir til að hlaða því niður. Appinu er ætlað að gefa öllum en þá sérstaklega ungu fólki, tækifæri til að tilkynna atvik til neyðarvarða, en neyðarverðir munu síðan sjá um að koma tilkynningum áfram til barnaverndar, lögreglu eða eftir því sem við á í hverju tilviki fyrir sig. Tilgangurinn er að auðvelda aðgengi barna og ungmenna að aðstoð og viðeigandi úrræðum ef þau verða fyrir ofbeldi af einhverju tagi.

Fræðslan mun standa yfir á næstu vikum á norðurlandi eystra og hafa skólar á svæðinu tekið vel í fræðsluerindið. Að þessu sögðu vilja greinarhöfundar hvetja foreldra og forráðamenn til  að ræða við börn og ungmenni um stafræna miðla, ábyrgð hvers og eins þegar kemur að notkun þeirra og stuðla þannig að öruggari samskiptum.

Silja Rún Reynisdóttir er lögreglumaður og forvarnarfulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Alfa Jóhannsdóttir er forvarnarfulltrúi á þróunar- og alþjóðasviði hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.


Athugasemdir

Nýjast