„Meiri niðurlægingu gat enginn veiðimaður lent í“

Ingólfur Sverrisson skrifar Þanka gamals Eyrarpúka

Eyrarpúkinn

Sjaldan birtist okkur Eyrarpúkum skýrar munurinn á gæfu og ógæfu en þegar einhver okkar dró fagran þorsk úr sjó á Sláturhúsbryggjunni á meðan annar fékk marhnút á öngul sinn. Meiri niðurlægingu gat enginn veiðimaður lent í enda marhnúturinn, að okkar dómi, afar ljótur fiskur, alsettur göddum með þykkar varir og stóran kjaft auk þess að vera sagður fullur af bandormum. Þegar maður lenti í þeirri ógæfu að landa slíku kvikindi var jafnan brugðið á það ráð að losa það hið snarasta af önglinum, taka utan um gellurnar, kreista þær þéttingsfast þannig að kjafturinn opnaðist upp á gátt og skyrpa vænum hráka ofan í marhnútinn með eftirfarandi orðum: „Farðu til fjandans” og henda marsanum svo aftur í sjóinn.  Sama gerðum við þegar lítil þorskkóð veiddust en þá var sagt blíðlega við þau: „Sendu stóra bróður til okkar.”

Þannig leið tíminn giska fljótt á bryggjunni þar sem við dunduðum með færin okkar, öngla, sökkur og beitur og freistuðum gæfunnar þegar öllu var rennt sjóinn. Eins og í öðrum útgerðum fylgdi þessu stússi náttúrlega töluvert slor og annað drullumall en það var einasta til að auka á ánægjuna og lífsgleðina þarna á bryggjunni við botn Eyjafjarðar.

Það voru þó fleiri en við Eyrarpúkarnir að vasast á þessum slóðum því stundum voru breskir tundurduflaslæðarar bundnir þar við festar með sínar stóru fallbyssur og fjölmörgu hermenn. Þessir drekar voru hér við land til að aðstoða breska togara sem voru sagðir við veiðar úti um allan sjó hér við land og jafnvel alveg uppi í kartöflugörðum; sel það þó ekki dýrara en ég keypti. Stundum komu hermennirnir úr þessum skipum til okkar á bryggjunni og forvitnuðust um líf okkar veiðimanna og aflabrögð. Við tókum þeim jafnan vel enda þótt þeir væru slappir í íslenskunni og kunnu greinilega bara útlensku. Þar sem ég var að dorga á bryggjusporðinum var mér stundum litið til þessara hermanna sem voru oft berir að ofan í hinni rómuðu Akureyrarblíðu. Velti ykkar einlægur þá gjarnan fyrir sér hvar þeir hefðu verið í styrjöldinni sem þá var ný afstaðin. Skoðaði úr fjarlægð hvort gróin sár leyndust á líkömum þeirra eftir hildarleikinn ógurlega. En þessi rannsóknarvinna bar engan árangur, allir heilir og spengilegir ungir menn. Af því dró ég þá ályktun að hlutskipti þeirra hafi verið það sama og marhnútanna sem komu á færin okkar; þeir sluppu án frekari áfalla enda þótt ekki hafi litið vel út um tíma.    

En hvort sem heppnin var með marhnútunum, okkur strákunum eða hermönnum Hennar hátignar var augljóst að heppni marhnútanna fólst í ófríðleik þeirra og fordómum okkar félaganna gagnvart þeim sem við töldum ljóta og óæta í þokkabót.  Heppni hermannanna fólst þó miklu frekar í tilviljunum því í stríðsátökum er algjörlega undir hælinn lagt hvort menn verða fyrir sprengjum eða skotum. Lukku okkar Eyrarpúkanna mátti hins vegar rekja til þess að hafa fæðst á þeim stað á Jörðinni þar sem ævintýrin gerast, frelsið í hávegum haft og sjálfsbjargarviðleitninni lítil takmörk sett. Þess vegna undum við jafnan glaðir og kátir við okkar hlutskipti á Eyrinni einu.  

Ingólfur Sverrisson


Athugasemdir

Nýjast