Kveikjum neistann á Norðurlandi

Svava Hjaltalín og Hermundur Sigmundsson
Svava Hjaltalín og Hermundur Sigmundsson

Hermundur Sigmundsson og Svava Hjaltalín skrifa

Lestur er lykill að öllu námi og menntun. Læsi er þar með þáttur sem skapar framtíð barna og ungmenna og hefur áhrif á almenn lífsgæði þeirra.

 Staðan:

15 ára unglingar á Norðurlandi eystra skora 452 stig í lesskilningi í PISA sem er 5 stigum færri en norskir og danskir innflytjendur (457 stig). Drengirnir okkar 15 ára (454 stig) eru einnig verri en norskir og danskir innflytjendur. Þessi staða kallar á aðgerðir hún er algjörlega óásættanleg. Í menntastefnu Akureyrarbæjar 2020-2025 er það kappsmál að skólastarf hjá Akureyrarbæ sé framúrskarandi. Þangað stefnum við og þangað geta vísindin leitt okkur.

Tölur frá Reykjavík (2019) sýna að 39% barna ná ekki að lesa sér til gagns eftir 2. bekk. Árið 2002 var þessi tala 33% og því aukning um 6% hjá þeim sem ná ekki læsi. Sambærilegar tölur í öðrum bæjarfélögum eru ekki að finna sem er í raun slæmt því til að geta gefið markvissa þjálfun og áskoranir miðað við færni þarf staða hvers einstaklings að vera þekkt. Skýrsla UNICEF frá 2020 sýnir okkur að 38% íslenskra ungmenna 15 ára eru ekki að ná grunnfærni i lesskilningi og stærðfræði.
Svo virðist sem skólinn með aðkomu heimila nái ekki að kenna grunnfærni í læsi á 10 ára skólagöngu 38% barna okkar. Það er skelfileg staðreynd og hlítur að kalla á markvissar aðgerðir.
Drengir eru að hverfa úr háskólastofnunum. Kynjahlutfallið er 70/30 í Háskóla Íslands og 78/22 í Háskólanum á Akureyri. Stærsta kynjahlutfall meðal OECD landanna og engin umræða heyrist í dag um þá skekkju.

 Vísindin:

Til þess að ná færni þarf mikla markvissa þjálfun og eftirfylgni (Ericsson). Það þekkjum við frá íþróttum, tónlist og þekkingarþróun. Við vitum að þar nær enginn góðri frammistöðu nema eftir mikla þjálfun, þar sem góður þjálfari, kennari og mentor eru í lykilhlutverki. Kunnátta á því sviði sem unnið er með er nauðsynleg til að börn og unglingar fá réttar áskoranir (Csikszentmihalyi). Verkefnin mega ekki vera of þung þá geta þau valdið kvíða og heldur ekki of létt því þá geta þau valdið leiða. Við vitum einnig að þættir eins og ástríða (mikill áhugi), þrautseigja (viljastyrkur) og gróskuhugarfar, eru hvatningarþættir sem eru gífurlega mikilvægir fyrir góðan árangur og vellíðan (Sigmundsson).

Í sambandi við lestrarkennslu byrjenda þá ákváðu bæði Frakkar og Bretar að leita í sarpinn til fremstu vísindamanna og innleiða með lögum að nota skyldi aðferðafræði sem leggur áherslu á að fara frá eind til heildar. Fremsti vísindamaður á sviði heila og færni, prófessor Stanislas Dehaene, með yfir 600 vísindagreinar fann út í sínum rannsóknum að til að læra að lesa þarf einstaklingur að byrja á að læra alla bókstafina og þeirra hljóð (eindir). Heilinn vinnur þannig að hann setur saman eindirnar. Þannig verður grunnfærnin til. Eftir því sem færni eykst er hægt að setja saman 2 og 2 bókstafi, 3-3 og 4-4 og þar með er lestrarkóðinn leystur (Breaking the reading code). Þá er það bara þjálfun og eftirfylgni sem gerir það að verkum að við getum lesið lengri orð og setningar.

Möguleikar:

Það er kominn tími til að breyta stefnu olíuskipsins, sem er klárlega ekki á réttri leið. Norðurland eystra verður að snúa vörn í sókn og tileinka sér aðferðafræði sem byggist á fremstu vísindum í sínum skólum. Leggja áherslu á að ná grunnfærni hjá öllum nemendum, þegar grunnurinn er orðinn traustur byggjum við ofan á hann. Við erum að tapa mannauði ef 38% eru ekki að ná grunnfærni 15 ára gömul og við það má ekki búa.

Vestmannaeyjar með Írisi Róbertsdóttur, kennara til 15 ára og bæjarstjóra ásamt skólastjórnendum voru í fararbroddi þegar verkefnið Kveikjum neistann var innleitt í Grunnskóla Vestmannaeyja í ágúst 2021. Þessir aðilar og þeir kennarar sem tekið hafa þátt í verkefninu eiga hrós skilið. Kveikjum neistann byggir meðal annars sína lestrarnálgun á kenningum Stanislas Dehaene. Einstaklingsstöðumat er framkvæmt 3 sinnum yfir skólaárið, september, janúar og maí. Árangur verkefnisins er mjög góður eftir fyrsta árið. Allir nemendur í 1. bekk lesa orð, 96% lesa setningar og 88% lesa samfelldan texta. Markmið eftir 2. bekk er að 80% þeirra séu fulllæsir, þ.e. geti bæði lesið aldurssvarandi texta hikstalaust og skilið hann. Þegar lestrarkóðinn er leystur er mikilvægt að leggja áherslu á að efla málskilning, efla lesskilning, efla skapandi skrif og framsögn. Að ná þeirri færni er stóra markmiðið.

Rannsóknarsetrið um menntun og hugarfar við HÍ er á því að Kveikjum neistann hugmyndafræðin þar sem breytt skipulag skóladagsins er ráðandi eigi heima í fleiri sveitarfélögum og skólum á Íslandi og þar á meðal skólum á Norðurlandi eystra. Breytt skipulag skóladagsins leggur áherslu á eftirfarandi fjóra þætti, grunnfærni, hreyfingu hvern dag, þjálfunartíma með áherslu á áskoranir miðað við færni og ástríðutíma þar sem börnum gefst kostur á vali eins og í námsgreinunum textíl, smíði, heimilisfræði, myndmennt og tónmennt, barn velur að morgni og hefur ekki er tækifæri til að velja oftar en einu sinni það sama. Það væri áhugavert að fá skóla á Norðurlandi eystra með í för þar sem áherslan væri á fyrstu 3 árin í grunnskólanum með það að markmiði að efla árangur og líðan. 

Það er stór áskorun að vera kennari yngri barna, sem öll eru einstök á sinn hátt. Það er okkar mat að skóli með opinn faðminn og vísindin að vopni efli mannauð!

Fyrirspurnum er svarað gegnum Facebook síðuna Vísindi og menntun.

Hermundur Sigmundsson, prófessor við Norska tækni -og vísindaháskólann, Þrándheimi og Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, Háskóla Íslands
Svava Hjaltalín, kennari Giljaskóla og verkefnastjóri við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, Háskóla Íslands


Athugasemdir

Nýjast