Fyrirmyndarsamfélag?

Stefán Tryggva- og Sigríðarson.
Stefán Tryggva- og Sigríðarson.

Mér finnst ég oft verða þess var að við Eyfirðingar lítum á okkur sem fyrirmynd annarra þegar kemur að sorpförgun, flokkun og endurvinnslu. Það kann vel að vera að við stöndum öðrum sveitarfélögum eitthvað framar en heilt yfir stöndum við okkur þó afspyrnu illa engu að síður. Við hættum að vísu að urða í túnfæti Akureyrar fyrir nokkrum árum en urðum bara vestur í Húnavatnssýslu í staðinn.

Við rekum vissulegu Moltu og framleiðum þar úrvals jarðvegsbætandi efni en dæmið virðist aldrei hafa verið reiknað til enda, í það minnsta er notkun moltunnar í litlu samræmi við framleiðsluna sem safnast þar saman fáum til gagns. Og svo er það blessuð endurvinnslan. Ég ætla ekki að leggja mat á hvernig gengur með grenndarstöðvar og gámasvæði sveitarfélaganna, það eru víst nógu margir sem hafa skoðun á þeim. En ég hef miklar athugasemdir við hvernig við lokum augunum fyrir afdrifum þess sem fer í endurvinnslutunnuna. Við notendurnir þykjumst hafa gert okkar þegar verktaki á vegum sveitarfélaganna kemur og losar tunnuna.

Sú var tíðin, a.m.k. í mínu sveitarfélagi, að flestir voru farnir að tileinka sér skynsamleg og markviss vinnubrögð við að flokka og ganga frá aðskildum efnisflokkum og gæta þess að umfang og frágangur væri sem bestur. En nú er öllu endurvinnanlegu meira og minna grautað saman. Þetta hefur leitt til þess að dregið hefur úr umhverfisvitund okkar því við þurfum ekki sjálf að vinna verkið, nú er notast við ódýrt erlent vinnuafl til að lesa í sundur það sem við vorum farin að gera inná heimilunum. Auk þess vitum við minnst hvað verður um einstaka efnisflokka. Sama á við um aðra endurvinnslu svo sem á raftækjum, tölvum og símum að ógleymdum stærri flokkum eins og húsgögnum, fatnaði og afgöngum sem til falla á byggingarsvæðum og í ýmsum iðnaði. Endursölumarkaðir eru vissulega dæmi um jákvæða þróun en þó IKEA kommóða eða 66°N úlpa skipti nokkrum sinnum um eigendur enda þær að lokum sem aflögð vara.

Þó endurvinnsla sé jákvæð, svo langt sem hún nær, hlýtur markmið okkar að vera minni neysla. Hringrásarhagkerfið, sem er grundvöllur sjálfbærrar þróunar, byggir á þeirri hugsun að við minnkum sem mest líkur á að til endurvinnslu þurfi að koma. Þetta þýðir t.d. að við gerum við allt sem mögulegt er að gera við í stað þess að kaupa nýtt. Við erum að kasta miklum verðmætum á glæ þegar fimm ára þvottavél með bilaðan mótor er hent í raftækjagáminn. Við megum ekki vera svo einföld að halda að þar með sé raunveruleg endurvinnsla tryggð. Þó búið sé að forða vélinni frá urðun er langt í frá að hægt sé að tala um fullnaðarsigur.

Nú spyrð þú lesandi góður, fæ ég einhverju breytt? Stutta svarið er auðvitað já. Við getum hvert og eitt endurskoðað verðmætamat okkar, ekki bara horft á reikninginn frá rafvirkjanum þegar búið er að gera við mótorinn í þvottavélinni. Við getum glaðst yfir því að hafa lengt líftíma þvottavélarinnar og þar með dregið úr neyslu og óþarfa sóun. Þá segja hagspekingarnir, en hagvöxtur minnkar og atvinnuleysi eykst. Gott og vel, þá dregur líka úr hnattrænni hlýnun og umtalsverð stytting vinnuvikunnar er svarið við atvinnuleysinu. Kófið sannaði svo ekki verður um villst raunveruleg áhrif alls þessa.

Stór áhrifavaldarnir eru þó að sjálfsögðu opinberir aðilar og atvinnulífið. Ég tel að fullreynt sé að verða að þessir aðilar taki með fullnægjandi hætti á vandanum. Til þess þarf miklu meiri þrýsting frá okkur neytendum og það þarf líka meiri þrýsting á okkur. Mín tillaga er að sveitarfélögin hætti að sækja sorpið heim til okkar. Að við verðum nauðbeygð til að taka meir ábyrgð á okkar eigin neyslu.

Allt sem við getum borið inná heimilin getum við líka borið út aftur

 Að inná heimilunum fari fram hin eiginlega flokkun, í til þess gerðum vélum, og endurnýtanleg„vara“ síðan afhent gegn gjaldi á vaktaðri móttökustöð því þessi hugsun byggir algjörlega á því að við förum að líta á umbúðir og aflagða hluti sem verðmæti en ekki kostnað. Ef við byrjum inná heimilunum erum við að ala upp neytendur framtíðarinnar (ekki bara setja ábyrgðina á leikskólana og grunnskólana). Saman sköpum við þrýsting á sveitarfélögin, landsstjórnina og atvinnulífið að koma til móts við þarfir okkar um mun fullkomnari merkingar á einstökum hlutum varðandi flokkun, einfaldari umbúðir og smám saman minnkað magn umbúða og þess sem við nú losum hugsunarlítið í „tunnurnar“.

Mörgum kann að þykja þetta draumsýn ein og víst kann svo að vera. Mér finnst samt að metnaðarfull áskorun gæti falist í því fyrir sveitarfélögin í Eyjafirði að hefja vinnu í þessum anda til að ná umtalsverðum árangri í umhverfismálum á svæðinu. Fyrsta skrefið gæti verið að krefja verktakana sem annast söfnun og förgun úrgangs um ítarlegar upplýsingar um afdrif einstakra flokka og síðan upplýsa okkur neytendur um niðurstöðuna. Víst er að við eigum langt í land með að komast af gámastiginu sem einkennt hefur þennan málaflokk síðustu áratugina.

Ég hef þá kenningu að lífið sé meira og minna spurning um viðhorf. Við þekkjum flest dæmið um vatnsglasið, er það hálftómt eða hálffullt. Ég hef reynt að tileinka mér að horfa á lífið út frá náttúrunni fremur en stundarhagsmunum okkar mannskepnunnar. Ég tek fram að ég á langt í land að komast þangað sem ég vil í þeim efnum. Ein lítil ákvörðun um að hætta að fljúga hefur þó sýnt mér hversu frelsandi slík ákvörðun er. Ég leyfi mér því að vona að ef þú ágæti samborgari tekur afstöðu með náttúrunni muni það fylla hjarta þitt hamingju og frelsi umfram það sem ný þvottavél gerir.

Ég skora á vin minn Wolfgang Frosta Sahr, kennara við Verkmenntaskólann að spinna þráðinn áfram.

-Stefán Tryggva- og Sigríðarson starfsmaður á Hótel Natur

 


Athugasemdir

Nýjast