Ferðafrelsi eða frelsið til að ferðast ekki

Wolfgang Frosti Sahr.
Wolfgang Frosti Sahr.

Fyrir um það bil 30 árum endaði skipting Þýskalands í austur- og vesturhluta. Á meðan vesturhlutinn taldi sig arftaka hugmynda um frjálsræði í efnahagslegu og pólitísku tilliti gafst íbúum austurhlutans tækifæri á að taka þátt í uppbyggingu sósíalisma. Komust þar fleiri að en vildu, því takmarkanir á tjáningarfrelsi, atvinnuvali og ferðafrelsi settu fljótlega sinn svip á lífið í austurhlutanum. 

Þannig urðu Austur-Þjóðverjar ekki aðeins fyrir aðskilnaði frá landsmönnum sínum í vestrinu, heldur var þeim jafnframt gert ókleift að ferðast til vesturlanda yfir höfuð. Meira að segja voru ferðamöguleikar til landa innan Varsjárbandalagsins einnig háð takmörkunum. Slíkar aðstæður er erfitt að ímynda sér, og vekur það væntanlega enga furðu að krafan um ferðafrelsi var eitt af lykilatriðunum í þeim mótmælunum sem urðu að lokum austur-þýsku stjórninni að falli. Allt fram að Covid 19 hefur síðan hinn iðnvæddi heimur notið þeirra forréttinda að geta hagað ferðalögunum sínum eftir áhuga, framboði og burðaþoli  peningaveskis.

Að því kom þó að áður óþekktar aðstæður fóru að setja takmarkanir á ferðafrelsið okkar, og það í slíkum mæli sem við höfðum ekki getað ímyndað okkur áður. Allt í einu átti hið vestræna efnahagskerfi í kröggum, af því að flestallir keyptu einungis það sem þá vantaði, en ekki það sem framleiðendur og auglýsingastofur töldu fólki trú um að það þyrfti. Kannski meira af nauðsyn en af vilja hvarf óþarfinn af innkaupalistunum okkar, og með minnkandi eftirspurn kom nokkuð vel í ljós hversu mikið neyslumunstur okkar er hvatt áfram utan frá.

Mér sýnist tilhögun á utanlandsferðalögum einmitt teljist líka í þennan flokk. Ferð til útlanda sem við hjónin ætluðum að fara um páskana varð að engu vegna breyttra aðstæðna. Jafnvel áður en flughafnirnar lokuðust veltu margir ferðalangar fyrir sér hvort réttlætanlegt væri að leggja í langferð. Því að öllu frelsinu fylgir ábyrgð. Þó að sú ábyrgð snéri upphaflega að veiruvörnum, kom þó annað í ljós þegar ferðalögin til útlanda stöðvuðust nærri algjörlega: mengunartölur um heim allan fóru að lækka, og sums staðar þar sem slíkt hafði ekki gerst í áratugaraðir fór aftur að sjást til sjóndeildarhrings. Breytingar sem rekja má til minnkandi umsvifa; þ.m.t. ferðalaga.

Við sýndum samstöðu og ferðuðumst innanhúss. Nú, þegar áhrif Covid-veirunnar eru í rénun, á Íslandi a.m.k., velti ég fyrir mér hvort hagsmunir umhverfis séu ekki jafn réttháir og veiruvarnir. Hvort ábyrgð hegðun gagnvart dreifingu veirunnar hafi sýnt okkur fram á ábyrgð okkar gagnvart umhverfinu. Að sumu leyti eru því veiruvarnir umhverfisvarnir - og öfugt.

Ísland með sína staðsetningu í miðju Atlantshafi mun um ókomna framtíð þurfa á flugsamgöngum að halda, og er ég ekki að tala um að bannfæra utanlandsferðir. En vissulega mun ég hafa efasemdir hvort það sé rétt að láta eftir mér að skreppa til Evrópu í eina helgi. Þegar ég sé svart á hvítu jákvæðu áhrifin af minnkandi umsvifum í flugmálum finnst mér ennþá auðveldara að fylgja slagorðinu um að „hugsa hnattrænt, en framkvæma heima fyrir.“

Með öðrum orðum: Ferðafrelsið er mikilvægur réttur. En það er líka rétturinn til að ferðast ekki.

Að lokum afhendi ég Bjarti Aðalbjörnssyni varaþingmanni pennan og hlakka til að lesa pistil hans í næstu viku.

-Wolfgang Frosti Sahr, framhaldsskólakennari      

 


Nýjast