Er það minn eða þinn sjóhattur? Takk Norðurþing!

Ágústa Ágústsdóttir.
Ágústa Ágústsdóttir.

Þann 20. janúar síðastliðinn sendi sveitarstjórn Norðurþings frá sér umsögn um frumvarp til laga um miðhálendisþjóðgarð. Vægt er tekið til orða með því að segja, að þetta sé eitt það allra slappasta sem komið hefur frá sitjandi sveitarstjórn. Skömm er að og sýnir að hagsmunir íbúanna er varpað fyrir borð í nafni hlutleysis. Heiðarlegra hefði verið að lýsa yfir beinum stuðningi við frumvarpið í stað þess tátipls sem á sér stað í umsögninni.

Í umsögninni segir m.a.:  „Að tækifæri kunna að liggja í uppbyggingu þjónustu og innviða fyrir þjóðgarðinn við Grímsstaði á Fjöllum og nærliggjandi svæði innan Norðurþings nærri mörkum þjóðgarðs og hálendisins.“

Nokkrum línum neðar segir: „Lykilatriði er að sveitarfélög séu ekki í einu og öllu bundin af stjórnunar- og verndaráætlun garðsins og þurfa ekki að taka allt sem þar kæmi fram inn í skipulag sveitarfélags.“

Þarna er algjör tvískinnungur á ferðinni og tipla menn þar í kringum grautarskálina, léttstígir eins og tófa án þess að marki neinsstaðar spor. Þeir sjá tækifærin sem mögulega liggja nærri mörkunum en þó sé lykilatriði að sveitarfélögin séu ekki bundin af stjórnunar- og verndaráætlun garðsins.

Hvers vegna gerir þá sveitarstjórn enga fyrirvara við 14. gr. 3. kafla  sem segir að öll jaðarsvæði muni falla undir stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðs ? Hvers vegna eru engar athugasemdir gerðar við að hvergi liggur nein skilgreining á orðinu „jaðarsvæði“ ? Með sínu svokallaða „hlutleysi“ er sveitarstjórn óbeint að leggja blessun sína yfir frumvarpið. Hún getur þá líklega sætt sig við að jarðir og eignir séu teknar eignarnámi með skipun ráðherra.

Henni finnst ásættanlegt að lýðræðislegt skipulagsvald kjörinna fulltrúa sé skert og völd 1/3 af landinu okkar sé fært á fárra manna hendur í nafni forræðishyggju. Henni finnst í lagi að aldrei hafi farið fram nein þarfagreining og hvergi liggi fyrir nein uppbyggingar- kostnaðar- eða rekstaráætlun fyrir svo stórt bákn. Henni finnst í lagi að nýtingar- og almannarétturinn sé virtur að vettugi þar sem ráðherra einn getur ef honum sýnist svo, lokað vegum og svæðum árið um kring. Þess má geta að innan Vatnajökulsþjóðgarðs er nú þegar búið að loka tugum slóða sem hefð var fyrir að nota í áratugi og jafnvel lengur. Engin ástæða er til að ætla annað en það sama muni gerast innan miðhálendisþjóðgarðs ef af honum verður.

Það er eitt ef meirihluta sveitarstjórnar hugnast sú hugmynd að það lýðræðislega rekna land sem Þjóðlendurnar eru, verði samþjappaðar niður í hendur eins ráðherra og breytt í enn eina ríkisstofnunina. En það er annað að samþykkja frumvarp í kringum þá stofnun sem inniber slíkt valdboð og einræði sem raunin er. Og ég held að sveitarstjórn ætti að velta því fyrir sér hvort raunveruleg náttúruvernd felist í því að stimpla hálendið allt með nafninu „Þjóðgarður“, vitandi að nafnið eitt og sér mun marfalda það magn ferðamanna sem mun vilja sækja það heim ? Hvað verður þá um þá náttúrulegu upplifun ferðamanna sem svo mikið er talað um ?

Einnig dreg ég það stórlega í efa, ef sveitarstjórn stæði frammi fyrir því að allt að 65% alls landsvæðis sveitarfélagsins ætti að falla undir þjóðgarð eins og blasir við öðrum sveitarfélögum, að hún myndi sýna slíkt hlutleysi sem hún sýnir nú.

Í ljósi þessarar óljósu afstöðu sveitarstjórnar er mér því með öllu óskiljanlegt hvers vegna yfir höfuð hún telur nauðsynlegt að halda uppi vörnum fyrir landi í eigu sveitarfélagsins í svokölluðu Ássandsmáli sem ríkið rekur nú fyrir dómstólum í nafni Landgræðslunnar. Þar vill ríkið slá eign sinni á stórt landsvæði norðan vegar í Kelduhverfi. Hvers vegna eru hagsmunir sveitarfélagsins veigameiri þar en annarsstaðar ? Það lítur allavega út fyrir að hagsmunir íbúanna vegi töluvert minna þegar þeir eru settir á vogarskálina á móts við hagsmuni sveitarfélagsins sjálfs.

Því hvet ég sveitarstjórnina til að segja sig frá Ássandsmálinu sem fyrst svo samhljómur geti ríkt í hlutlausum vinnubrögðum þeirra og framkomu því þar fer ekki saman hljóð og mynd í dag.

-Ágústa Ágústsdóttir, íbúi við Öxarfjörð


Nýjast