Eitt og annað um náttúruna sem kallar og kallar

Elísabet Ásgrímsdóttir.
Elísabet Ásgrímsdóttir.

Vorið er komið vel á veg og alltaf er það jafn dásamlegt, birtutíminn, fuglasöngurinn, náttúran lifnar, sauðburðurinn, fleira hjólreiðafólk og gangandi á ferli að ógleymdu ruslinu sem fauk frá eigendum sínum í vetur kemur nú undan snjónum.

Morgunverkið mitt í dag 16. maí þegar ég rita þennan pistil, var einmitt að tína rusl meðfram veginum á Svalbarðsströnd ásamt sveitungum á árlegum umhverfisdegi. Þetta er alltaf ánægjuleg framkvæmd, taka til í sveitinni og af nógu er að taka, og þó. Við sem þátt tókum vorum sammala um að heldur minna rusl hefði verið í ár. Þetta eru gjarnan allskonar drykkjarumbúðir, sígarettustubbar, einnota varningur, lyfjabréf, allskonar plast, umbúðir af nikotínúða og fleira. Heldur minna var af einnota kaffimálum og sígarettustubbum en nokkuð meira af tóbakspúðum í munn. Tilfinningin var svolítið á þá leið að maður væri að tína út úr fólki, ekki mjög heillandi.

Ég fæst nokkuð við að skapa og er fljót að fá hugmyndir þó þær komist hvergi nærri allar í framkvæmd. Meðan á ruslatínslunni stóð kom fljótt örsaga um manninn sem ætlaði að hætta að reykja en gekk illa, fékk sér tóbakspúða í munn til að trappa sig niður en líka svolítinn nikotínúða. Þetta reyndist fullmikið af því “góða” svo hann dó. Ég vona samt ég rekist ekki á líkið af honum á næsta umhverfisdegi!

Skömmu síðar fann ég tvær bjórflöskur, rétt hjá þeim lyfjabréf og sígarettustubb, nokkrum skrefum lengra voru fáeinar heilar sígarettur og aðeins lengra pakkinn utan af. Örsagan varð til: Bjórinn kláraðist, annar fékk sér að reykja, hinn fékk höfuðverk af reyknum og skellti í sig heilu bréfi af verkjalyfi. Höfuðverkurinn lagaðist ekki, hann fékk nóg, reif pakkann af reykingamanninum, sturtaði restinni úr og kramdi pakkann. Þeir töltu svo áfram saman í átt að sólarlaginu! 

Ýmsar sögukveikjur aðrar fundust t.a.m. blúndunærbuxur en ég fann þær ekki svo þið fáið enga sögu af þeim. Eitt árið vann ég 100 mynda ljósmyndaverk úr ruslatínslunni sem ég svo endurvann síðar í textaverk, en ekki hvað! Það er a.m.k. jákvætt að minna rusl sé við veginn þó sannarlega sé það líka sorglegt að enn fái það að fjúka út um bílgluggana en ég trúi því að þetta muni lagast.

Sumir segja að ég sé með rusl á heilanum en það er ég ekki. Ég viðurkenni þó að ég hugsa býsna um það en þó aðallega um það hvernig ég skapa sem minnst rusl. Þessu fylgir auðvitað að nota hlutina eins mikið og mögulegt er, finna þeim nýjan tilgang, ef gefst versla notað frekar en nýtt, að ég tali nú ekki um að flokka en það gleður mig sérlega mikið að sjá rétt flokkað. Einhverra hluta vegna virðist það enn sumum erfitt!  

Börnin á heimilinu eru reyndar hætt að kippa sér upp við það þegar þau sjá okkur hjónin taka hluti í sundur sem hafa þjónað sínu, þar sem eitthvað á heima í plastinu, annað í járninu eða í almennu. Vonandi taka þau okkur til fyrirmyndar!

Ég reyni að vera með jörðinni okkar í liði eftir fremsta megni, nýta og njóta og velja umhverfisvænni kostinn, ég er alltaf að verða betri og betri í því.

Fyrir mér eru það forréttindi að búa í dreifbýli með náttúruna allt um kring þó það sé auðvitað ekki ýkja langt í næstu hús, stutt bæði til fjöru og fjalls og svo er líka þetta fína útsýni yfir til Akureyrar. Að leggjast í móann og hlusta á náttúruhljóðin, sjá jörðina lifna og fjölbreytt fuglalífið eru partur af fyrrnefndum forréttindum. Svo má ekki gleyma sauðburðinum, það hefur alltaf sinn sjarma að stússast í fénu. Mig langaði svo mikið að deila þessari upplifun minni með krökkum sem eru mörg hver orðin svo fjarlæg náttúrunni, að þegar ég hef komið því við hef ég boðið upp á Skapandi samveru, þar get ég sameinað listamanninn og náttúrubarnið í mér. Við komum saman heima hjá mér og erum bara úti, förum í gönguferðir, finnum fjársjóð til að vinna úr eða notum það sem aðrir eru hættir að nýta. Við sögum, smíðum, límum og málum svo úr verða allskonar listaverk. Þetta er eitt af því skemmtilegasta sem ég fæst við og ómetanlegt fyrir marga krakka að komast í.

Hjólreiðar eru alltaf að aukast og það eru frábærar fréttir að sala á reiðhjólum hafi aukist til muna undanfarið. Því fylgir væntanlega að fleiri kjósa þennan heilnæma og náttúrvæna ferðamáta hvort sem er til erinda eða útivistar, enda stígar til hjólreiða og göngu komnir víðar en var. Hjólreiðagörpum víðsvegar að hefur fjölgað á ströndinni, sumir fara sér hægt en aðrir á sprettinum. Við fjölskyldan hjólum nokkuð og við hjónin gjarnan til vinnu, hann til Akureyrar og ég á út á Svalbarðseyri, sveitungar okkar margir gera slíkt hið sama rétt eins og fólk um víða veröld. Ýmislegt gott bættist líka í lagabálk varðandi hjólreiðar s.l. áramót m.a. að hjólandi eiga að gera gangandi umferð viðvart með hljóðmerki á stígum ásamt því að víkja fyrir þeim gangandi. Best fannst mér þó að sjá að sé bifreið ekið fram úr reiðhjóli á bilið á milli að vera einn og hálfur meter og ég ætla að hafa trú á að ökumenn muni virða þetta. Það vill svo til hér á ströndinni að um þröngan og hættulegan vegakafla er að fara þegar farið er í gegnum Vaðlareitinn, það er nefnilega ekki enn kominn göngu- og hjólreiðastígur á ströndinni. Umferðin hefur sannarlega minnkað norðan við göngin en ekki sunnan við þar sem  fyrrnefndur vegakafli er og það er t.d. ekki sérstaklega spennandi að hjóla þar með krakka. Alltaf pínu fúlt að keyra hjólin á valinn áfangastað, svo þeirra öryggi sé a.m.k. tryggt, til að hefja hjóltúrinn. Ég ætla líka að hafa trú á að úr því leysist innan fárra ára, áður en stór skaði skeður og komi stígur með þessu líka stórkostlega útsýni.

Náttúran heldur áfram að kalla á okkur að velja vænni kostinn og ég ætla að halda áfram að hafa trú á fólki og góðum ákvörðunum, senda svo fingurkoss og áskorendapennann yfir til Hörpu Barkardóttur ferðaskrifstofueiganda og formanns SUNN.

-Elísabet Ásgrímsdóttir


Nýjast