Einræða eða samræða

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

“Jæja, þarna kemur þá eitthvað í átt að svari,” sagði ég við sjálfan mig þegar ég skoðaði viðbrögð þriggja bæjarfulltrúa í síðasta Vikublaði við hugmyndinni um að nýta hluta stækkaðs JMJ-húss sem Ráðhús Akureyrar. Þetta voru nefnilega fyrstu viðbrögð innan úr Ráðhúsinu við ofangreindri hugmynd sem ég hafði kynnt þar inni fyrir all nokkru í umboði allra eigenda JMJ-hússins.  Fram að því hafði okkur eigendunum ekki verið svarað einu orði um hugmyndina sem borin hafði verið fram af einlægni og alvöru. Ekki eitt einasta orð, bara ítarleg þögn sem í mínu ungdæmi var lagt að jöfnu við ókurteisi, “Þú átt alltaf að svara ef á þig er yrt,” sagði mamma mín.   

Upphaf þessarar umfjöllunar var að vakandi blaðamaður, sem hafði haft spurnir af hugmyndinni, leitaði til mín um upplýsingar hvað hér væri á ferðinni. Ég svaraði því í örstuttu máli eins og sjá má í Vikublaðinu þann 25. mars síðastliðinn og varð var við mikinn áhuga á málinu meðal almennings.  Í lok samtalsins sagði ég: „Við treystum því að bæjarstjórn skoði þessar hugmyndir frá öllum hliðum og að við munum eiga gott samtal um málið á næstunni.” Því miður virðist sem þessar frómu væntingar - að skoða málið frá öllum hliðum og ræða við okkur eigendurna – hafi verið með öllu óraunhæfar  því við heyrðum ekkert frá bænum fyrr en við sáum viðtalið við áðurnefnda þrjá bæjarfulltrúa í blaðinu þar sem þeir opinbera einhvers konar afstöðu til erindis okkar sem þó hafði aldrei verið rætt við okkur einu orði hvað þá skipst á skoðunum um það. 

Viðhorf byggð á misskilningi

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, segist þó vera jákvæð fyrir umræðum af þessu tagi en bætir við að það „sé heppilegra fyrir bæinn að eiga húsnæðið frekar en að leigja rými af öðrum undir grunnstarfsemi sína.” Gunnar Gíslason segist líka ekki sjá hagkvæmnina í því að bærinn leigi húsnæði af öðrum án þess að rökstyðja það frekar. Gott og vel. 

Ef fram hefðu farið umræður milli aðila um hugmyndina hefði komið í ljós, eins og ég upplýsti strax í upphafi, að við eigendur erum ekki síður opnir fyrir því að bærinn eignist húsið að einhverju eða öllu leyti.  Ekkert skilyrði af okkar hálfu að leigja bænum ef hann vildi frekar kaupa eignina í heild eða að hluta.  Þessi boðskapur virðist ekki hafa komist til þeirra bæjarfulltrúa sem tjáðu sig um málið.  Það sýnir ljóslega að nauðsynlegt hefði verið að fulltrúar frá bænum og eigendur umræddrar eignar hefðu rætt saman um hugmyndina og kannað alla fleti málsins áður en allt var blásið út af borðinu af hálfu bæjarins.

Ljóst er að hefðu slíkar viðræður farið fram hefðum við  eigendur hússins hafa vakið athygli bæjarfulltrúa á ýmsum kostum sem við sjáum fyrir bæinn að fara þessa leið – hvort heldur um er að ræða kaup eða leigu á JMJ-húsinu. Við hefðum m.a. bent á að unnt er að ganga algjörlega frá húsinu áður en bæjarskrifstofan flytti þangað inn.  Þá slyppu starfsmenn bæjarins við allt það ónæði og rask sem fylgir endurbyggingu núverandi Ráðhúss og vinna þeirra þar og þjónusta við bæjarbúa yrði mun auðveldari og skilvirkari en ella.   

Guðmundur Baldvin hefur áhyggjur af því að staðsetning á núverandi Ráðhúsi henti betur með tilliti til bílastæða. Samkvæmt mínum vísindalegu mælingum kom í ljós að á milli JMJ og Ráðhússins eru innan við fimmtíu metrar svo ekki ætti mikil fjarlægð að ráða úrslitum varðandi bílastæðamálin nema fólk sem þangað á erindi sé til skaða fótafúið. Það á auðvitað ekki við um Guðmund vin minn sem er manna léttastur á fæti!

Nauðsynlegt að skoða alla möguleika

Að öllu gamni slepptu tel ég grafalvarlegt að afgreiða svona mikilvægt málefni án þess að eðlilegar samræður fari fram milli aðila þar sem kostir og gallar hugmyndarinnar eru ræddir og metnir á hlutlægan hátt. Þessu til viðbótar hefði bæjarstjórninni þá gefist tími til að skoða hugmyndina sem komið hefur fram í þessu sambandi að öflugt fasteignafélag keypti Ráðhúsið við Geislagötu sem myndi opna áhugaverða möguleika fyrir bæinn og auðvelda ýmsa hluti fjárhagslega. Það væri áreiðanlega einnar messu virði.

Mikilvægi samræðna

Af öllu þessu má draga þá ályktun að bæjarfulltrúar hafi afmarkað umræðuna um ofangreind tækifæri fyrir bæinn innan eigin hóps.  Vissulega getur verið gagnlegt að tala við sjálfan sig en telja verður farsælla í tilviki eins og þessu að ræða jafnframt við aðra samborgara og áhugasama fjárfesta því samræður einar og sér geta framkallað frábærar lausnir sem annars hefðu ekki séð dagsins ljós. Að mínum dómi hafa mörg góð tækifæri fyrir bæinn okkar farið forgörðum einmitt vegna þess að taugin milli bæjarstjórnar og íbúanna hefur trosnað hin síðari ár. Þess í stað virðist eins og einræður hafi verið leiddar til öndvegis innan bæjarstjórnar um leið og kostir samræðunnar við bæjarbúa og aðra sem vilja taka þátt í uppbyggingu bæjarins hafa verið vannýttir.  En hver veit nema Eyjólfur hressist. Vorið er á næsta leiti og veiran vonandi á förum! 

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

 

 


Athugasemdir

Nýjast