Búið þið þarna allt árið?

Áskorandapenninn

Finnur Yngvi Kristinsson skrifar

 

Það er notalegt að vakna á morgnana, líta út um gluggann og heyra ekki í neinni umferð. Það er notalegt að þurfa ekki að eyða tíma sínum á umferðarljósum, í biðröðum eða í að skutlast út um allar trissur.

Áskorandinn

Að eyða tíma og að njóta tíma er ekki það sama. Maður eyðir ekki tíma með börnum sínum eða vinum, maður nýtur hans. Maður eyðir ekki tíma í afþreyingu eða skemmtun, maður nýtur hans.

Tíminn er auðlind sem hver og einn á, sú auðlind er takmörkuð. Tíminn er líka gjaldmiðill, sá eini sem allir eiga sameiginlegan og sá eini sem erfitt getur reynst að fá meira af. Við þurfum því að bera virðingu fyrir tímanum og reyna að njóta hans í stað þess að eyða honum.

Mér finnst lífsgæði felast í þeim tíma sem ég get notið, hvort sem það er með fjölskyldu, vinum eða jafnvel bara með sjálfum mér. Mér finnst mælikvarði lífsgæða ekki felast í því hversu margar verslunarmiðstöðvar eru nálægt mér eða hversu mörg leikhús eða bíó eru við hlið mér. Lífsgæði mælast ekki í eignum eða fjölda vina heldur í þeim tíma sem maður á til að njóta þessa.

Fyrir skömmu hringdi besti vinur minn í mig úr borginni. Hann var á leið til vinnu í morgunumferð höfuðborgarsvæðisins á mánudagsmorgni en ég var að ganga út um hurðina heima, leiddi dóttur mína á leikskólann og gekk síðan í vinnuna. Ég settist við skrifborðið, ræsti tölvuna og sótti mér tebolla og naut ennþá samtals við vin minn. 15 mínútum eftir að ég lokaði útidyrahurðinni heima var ég tilbúinn að vinna og búinn að fara með dóttur mína í daglega morgungöngu á leikskólann en vinur minn var ennþá fastur í umferðinni og hafði þokast áfram um 5 kílómetra. Ég vona að hann hafi notið tímans svona fyrst við vorum að spjalla saman en hann eyddi víst örugglega tímanum í umferðinni, tíma sem hann hafði þá ekki með fjölskyldunni. Þetta er daglegt viðfangsefni borgarbúa, viðfangsefni sem ég þarf ekki að eiga við þar sem ég kýs að búa í dag.

Þegar ég bjó á Siglufirði og sinnti því spennandi verkefni að stýra Sigló Hóteli ásamt eiginkonu minni vorum við oft spurð af því hvort við byggjum þar allt árið. Í dag bý ég í Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit, þar hef ég ekki fengið þessa spurningu ennþá kannski vegna nálægðarinnar við Akureyri.

Fólk velur sér búsetu, það kýs almennt að búa sér heimili þar sem því líður vel. Til þess að geta notið tímans þarf maður að eiga tíma fyrir sig, tíma til að vera með sínum nánustu, tíma til að vera ekki í stöðugri keppni við tímann. Í dag kýs ég að búa ekki á höfuðborgarsvæðinu því ég ásælist ekki það sem þar er í boði nema í hæfilegum skömmtum og sæki það þá með tímabundinni viðveru. Mögulega breytist það í framtíðinni, það mun tíminn leiða í ljós.

Ég skora á Halldór Óla Kjartansson til að taka við keflinu.


Nýjast