Brynjólfur Ingvarsson veitir Flokki fólksins forystu á Akureyri

Jakob Frímann Magnússon
Jakob Frímann Magnússon

Jakob Frímann Magnússon skrifar

Með skömmum fyrirvara ákvað sá er þetta ritar að ganga til liðs við Flokk fólksins í Norðausturkjördæmi í aðdraganda Alþingiskosninganna í september 2021. Fjórar vikur voru til kosninga þegar baráttan hófst fyrir alvöru og fólst m.a. í að safna undirskriftum á fjölförnum stöðum svo framboð þessaunga flokks í NA mætti teljast löglegt og skráningarhæft. 

Einn maður í fámennu baklandi flokksins hér nyrðra bar af öðrum að fórnfýsi  og elju. Það var geðlæknirinn geðþekki, Brynjólfur Ingvarsson. Hann reyndist ávallt boðinn og búinn að leggja sig fram og sparaði sig hvergi. Hann sóttist ekki eftir neinu fyrir sjálfan sig en féllst eftir ítrekaðar áskoranir á að skipa 3. sæti listans..

Það vakti athygli mína og annarra hve margir hópuðust að lækninum og lýstu sig fúsa til að ljá honum undirskrift sína, hvar sem hann fór á sama tíma og fulltrúar annarra flokka áttu á brattann að sækja í þeim efnum.

Þegar afla þurfti aðfanga, húsgagna og annarra nauðsynja á nýopnaðri kosningaskrifstofu flokksins við Skipagötu var það Brynjólfur sem gekk fram fyrir skjöldu og axlaði ábyrgð. 

Það fór þegar einkar vel með okkur Brynjólfi og ekki spillti fyrir þegar í ljós kom að afar okkar beggja höfðu gegnt krefjandi starfi kaupfélagsstjóra KEA. Það vakti sömuleiðis athygli mína hversu hraustur og þrekmikill maðurinn reyndist, þó kominn væri af léttasta skeiði. Daglegar gönguferðir, sundferðir, útreiðartúrar, sjálfsagi og heilbrigð lífssýn virðist lykillinn að eilífri æsku og lífskrafti þessa merka manns sem auk lækninga og mannúðarstarfa hefur ritað fjölda bóka, þ.m.t. prýðilegra ljóðabóka. Nýjasta bók Brynjólfs kom út á nýliðnu ári og hlaut góðar viðtökur enda ljóð læknisins góða bæði dýrt kveðin og fögur. 

Fyrir utan góðan sigur Flokks fólksins í kosningunum sl. haust stendur það upp úr þá horft er um öxl hve ánægjulegt það var að kynnast og fá að starfa með Brynjólfi Ingvarssyni. Hann er sannkallað valmenni sem hefur helgað líf sitt því að hjálpa öðrum að öðlast betra líf. Einkunnarorð hans eru í raun þau sömu og Flokkur fólksins hefur gert að sínum:  

Fólkið fyrst – svo allt hitt! 

Það er Flokki fólksins mikið ánægjuefni að slíkur öndvegismaður skuli nú skipa 1. sæti framboðslistans í komandi bæjarstjórnarkosningum sem fram fara n.k. laugardag 14.maí. Viðbrögðin við framboðinu hafa skv. nýjustu könnunum  öll verið á einn veg: 

Akureyringar fagna mjög framboði Brynjólfs Ingvarssonar og Flokks fólksins.  

Hann mun hér eftir sem hingað til með hollustu sinni og trygglyndi, standa vörð um velferð almennings og ekki síst þeirra sem eldri eru eða úr viðkvæmari hópum samfélagsins.   

Þegar slíkir öðlingar gefa kost á sér til starfa ber að tryggja þeim gott brautargengi í kosningum – ekki síst þegar þeir gegna forystu í jafn vel skipuðum hópi og raun ber vitni hjá Flokki fólksins á Akureyri.  

Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að ganga til kosninga n.k. laugardag og greiða atkvæði sitt Flokki fólksins þar sem hinn valmennið Brynjólfur Ingvarsson er í öndvegi. Þá mun vel fara. 

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins. 

 


Athugasemdir

Nýjast