Allt var betra í gamla daga… eða ekki!

Egill P. Egilsson skrifar 

Það er ekki laust við að fortíðarþráin fari vaxandi eftir því sem aldurinn færist hraðar og hraðar yfir. Þá dettur manni gjarna í hug að það hafi nú allt verið betra í gamla daga. Sennilega er sú ekki raunin, en mikið óskaplega var lífið oft eindaldar í denn.

Eipi

Ekki þurfti maður að eyða heilu og hálfu kvöldunum í að leita að skemmtiefni til að horfa á. Maður flakkar á milli efnisveita eins og Netflix, Hulu og Prime eða hvað þetta heitir nú allt saman. Þegar áhorfsferill minn hófst var ekki sjónvarp á fimmtudögum og kassinn fékk líka sumarfrí í júlí. Hápunktur vikunnar var þegar Sigurður H. Richter birtist á 20 tommur Sharp túbúsjónvarpinu og sagði manni af Nýjustu tækni og vísindum. Það var sko hátíð í lagi og ævintýraheimur fyrir lítinn dreng. Stundum var dagskráin líka brotin upp og sýnd heimildarmynd um ungverskan stærðfræðing, Þá var gaman að lifa.

 Flokkun allan daginn

Í Gamla daga var uppistaðan í eldhúsfrágangi sú að vaska upp. Það var oftar en ekki en ekki samstarfsverkefni fjölskyldunnar, þar sem einn vaskaði upp, annar þurrkaði og sá þriðji gekk frá í skápana. Heimilissorpið fór allt í sama pokann og þaðan út í blikktunnu með svörtum ruslapoka. Ómar í ruslinu kom svo  með strákana sína og tók pokana; og aldrei var kvartað þótt tunnan væri á kafi í snjó. Í þá daga var líka mun minna sorp. Í fiskbúðinni var fiskinum vafið inn í gömul  dagblöð og kjötfarsinu var skammtað eftir vigt. Svo var herlegheitunum keyrt út í sorpbrennslustöð og brennt með góðri samvisku.

Nú er öldin önnur, á meðan uppþvottavélin sér um uppvaskið (það má ekki einu sinni skola leirtauið áður) og kvöldið fer í að skola umbúðir úr plasti, pappír og áli. Síðan er auðvitað allt flokkað eftir kúnstarinnar reglum. Svo má maður þakka drottni sínum ef tunnan er yfir höfuð tekin. Það gæti auðvitað verið rifa á lokinu og þá er voðinn vís.

Engan reyk nema dísel

Loftslagsváin vofir vitaskuld yfir okkur, það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum. Af þeim sökum má eðlilega ekki brenna nokkurn skapaðan hlut… nema auðvitað olíu til að flytja skolaðar umbúðirnar okkar á bílum og skipum; landshorna á milli þar sem herlegheitin eru urðuð eða jafnvel á milli landa. Allt í nafni umhverfisverndar. Ætli Stebbi í Steindal færi ekki létt með að minnka allt þetta kolefnisspor með brennsluofninum sínum?

Myndageðveiki

Nú til dags er nánast hver einasta mannvera með fullkomna ljósmyndavél í vasanum. Það hefur vitanlega leyst af hólmi margar ferðirnar á ljósmyndastofuna til að láta framkalla. Einhver gæti kallað það einföldun. En þá var fólk heldur ekki að taka myndir af öllum sköpuðum hlutum. Nú virðist fólk ekki geta troðið fæti í eina buxnaskálm án þess að taka af því mynd og deila með restinni af heiminum. Við þetta fólk við ég segja: Það hefur engin áhuga á þessu. Gerið það, hættið þessu.

Svona mætti leng telja. Ótal hlutir sem hafa verið einfaldaðir fyrir okkur, en um leið gerðir miklu flóknari. En svo ég miðaldir nú ekki alveg yfir mig, þá er veröldin sennilega eitthvað betri í dag en í denn. Við erum þrátt fyrir allt öruggari, heilsusamlegri, upplýstari og við megum segja meira. Við búum við frelsi, forréttindi og þægindi sem á sér ekki hliðstæðu í sögunni. Þó vissulega fylgi þessu bölvað óþarfa suð, kvart og kvein. Þá er er rétturinn til að væla yfir öllu og engu þeim mun dýrmætari.

Egill P. Egilsson


Athugasemdir

Nýjast