Aldraðir, Hvammur og hjúkrunarheimili

Samsett mynd/Hafþór Hreiðarsson
Samsett mynd/Hafþór Hreiðarsson

Þeir einstaklingar sem fæðast í dag geta búist við því að ná jafnvel 135 ára aldri. Lífslíkur á Íslandi eru með þeim mestu í Evrópu. Meðalævilengd karla á Íslandi er 81 ár og kvenna 84,1 ár. Sömuleiðis er ungbarnadauði í Evrópu minnstur á Íslandi. Okkur fjölgar hratt og við lifum lengur. Þessi þróun er þó engin trygging fyrir því að lífslíkur haldi áfram að aukast. Það er hinsvegar blekkingar hámarkinu sé náð.

Hjálmar Bogi

Lýðheilsa stækkandi hóps eldri borgara

Árið 2013 stóð félag sjúkraþjálfara fyrir málþingi um farsæla öldrun. Þar kom meðal annars fram mikilvægi þess að skapa jákvæðara viðhorf samfélagsins í garð aldraðra. Sömuleiðis mikilvægi heilsutengdra lífsgæða aldraðra með áherslu á forvarnir enda góð heilsa; líkamleg, andlega og félagsleg nauðsynleg til að njóta efri áranna. Það var því miður að meirihluti fjölskylduráðs Norðurþings skyldi taka neikvætt í erindi Félags eldri borgara á Húsavík & nágrenni um sérstakt verkefni varðandi lýðheilsu aldraðra enda heilsueflandi samfélag. En í langlífinu felast tækifæri, s.s. að hækka lífeyristökualdur um eitt ár á fimm ára fresti næstu árin? En lífið án öldrunar verður sífellt lengra.

Loksins hjúkrunarheimili

Það eru umbreytingar aðeins handan við morgundaginn. Framundan er uppbygging hjúkrunarheimilis fyrir Þingeyinga á Húsavík. Loksins. Enda hefur ríkið dregið lappirnar í málinu undanfarinn áratug. Það klagar þó síst upp á núverandi heilbrigðisráðherra svo því sé haldið til haga. Það er að hluta til heimatilbúinn vandi. En hlutur sveitarfélaganna verður tæplega 900 milljónir króna. Hlutur Norðurþings er eins og staðan er núna, um 680 milljónir króna. Umræða um hvernig mæta á þessari fjárfestingu er þó afar skammt á veg komin. Því miður. Sömuleiðis skortir okkur kjark til að krefja ríkið um aukna aðkomu að verkinu, s.s. við byggingu tengigangs sem er tengibygging milli fyrirhugaðs hjúkrunarheimilis og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík. Þessari gagnrýni verður væntanlega svarað að undirritaður sé illa að sér. Gott og vel. Meira en hundrað einstaklingar bíða eftir búseturéttaríbúðum og biðin ansi löng hjá mörgum.

Hvammur, hvað svo?

Með tilkomu nýs hjúkrunarheimilis ofar í Skálabrekkunni þarf að ræða; hvernig ætlar samfélagið að nýta núverandi húsnæði Hvamms? En Hvammur var byggt sem dvalarheimili fyrir sveitarfélögin frá Ljósavatnshreppi til Raufarhafnarhrepps. Fyrstu íbúarnir fluttu inn 1. maí árið 1981 og því fagnar Hvammur 40 ára afmæli um þessar mundir. Eðlilega höfum við fjarlægst upphafleg markmið með rekstri heimilisins; að þar myndu búa sjálfbjarga einstaklingar. Langstærsta hlutverk heimilisins í dag er hinsvegar rekstur á hjúkrunarrýmum. Þau munu færast í nýtt húsnæði og eftir stendur núverandi húsnæði sem var byggt fyrir fé heimamanna og með styrk úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Ég vil því skora á Þingeyinga að ræða og velta fyrir sér framtíðarmöguleikum húsnæðisins. Við eigum, verðum og þurfum að ræða það; í sveitarstjórnum, við eldhúsborðið, í saumklúbbnum eða fjárhúsinu. Það er mikilvægt að hafa hagsmuni þessa stækkandi hóps íhuga og halda í upphaflegan tilgang og bjóða upp á fjölbreytt búsetuúrræði fyrir aldraða. Tryggja þannig ánægjulegt ævikvöld aldraðra í Þingeyjarsýslum.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Oddviti framsóknar & félagshyggju í Norðurþingi


Athugasemdir

Nýjast