Að afrækja eigið afkvæmi

Ragnar Sverrisson kaupmaður.
Ragnar Sverrisson kaupmaður.

Fyrir skömmu ritaði ég grein í Vikublaðið þar sem bent var á að ekki væri sjálfsagt að þjóðbraut liggi í gegnum miðbæ Akureyrar. Gild rök væru fyrir því að slík braut væri lögð fyrir ofan meginbyggðina og truflaði ekki miðbæjarlífið.  Af fjölda viðbragða skynja ég að mörgum þykir full ástæða til að ræða þennan flöt málsins og skoða kosti og galla. Svo komu fram aðrar raddir, eins og frá Oddi Helga Halldórssyni fyrrum bæjarfulltrúa, sem telur að gegnumstreymisumferð sé ekki það mikil að hún gæti með góðu móti farið um miðbæinn ef skynsamlega er haldið á málum. Töluvert til í því enda má með réttu segja að sú leið hafi verið útfærð í skipulaginu frá 2014 og því eðlilegt af þessu tilefni að skoða  hana nánar.

 

Farsæl lausn fundin

Í deiliskipulagi miðbæjarins, sem samþykkt var 6. maí 2014, var gert ráð fyrir að leysa málið með því að fækka akreinum Glerárgötu norðan frá Grænugötu  og suður að Torfunefi úr tveimur í eina og færa götuna aðeins austar milli Strandgötu og Torfunefs.  Með því að gera þennan spotta að 1 + 1 götu var það mat bæjarstjórnar að umferð yrði hæg, vistvæn og örugg í gegnum þetta hjarta miðbæjarins. Auk þess myndast við þetta 5000 fermetra byggingarsvæði vestan Glerárgötu á dýrasta svæði bæjarins og því óþarfi að hækka byggingarnar þar um tvær til þrjár hæðir eins og nú er illu heilli stefnt að.  Á annatímum gætu  bílar sem kæmu að norðan þurft að sæta lagi hjá Grænugötu til að komast áfram úr tveggja akreina götu í eina sem tæki við suður að Torfunefi og svo þaðan áfram eins og er í dag. Á þessari leið yrðu nokkrar gangbrautir yfir Glerárgötuna og þannig ætti allt að geta gengið upp, bæði fyrir akandi og gangandi.  Þetta var einróma niðurstaða bæjarstjórnar undir traustri forystu Odds Helga og Loga Más Einarssonar. Þá var ekki annað en að koma sér að verki og undirbúa uppbyggingu samkvæmt þessari vel ígrunduðu samþykkt.. En þá byrjaði  vandræðagangurinn fyrst að grassera enda þeir félagar farnir úr bæjarstjórn og alvarlegt forystuleysi tekið við.

 

Umferðarhnútur í miðjum bæ

Eftir mikið japl, jaml og fuður var ofangreindri lausn kastað út í veður og vind í vor af núverandi bæjarstjórn. Eitt af því var að hraðbraut með tveimur akreinum  á Glerárgötu skyldi haldið áfram, alla leiðina suður að Torfunefi og göngubrautum vestan Hofs fækkað úr þremur niður í eina. Á þessari einu gangbraut verði síðan tvær akreinar fyrir bílaumferð að norðan og sunnan. Því munu bílar koma þangað á fullri ferð úr báðum áttum á fjórum akreinum, safnast saman  á þessum litla bletti og sæta lagi að komast yfir umrædda göngubraut. Þar með er ljóst að búið er að leggja drög að mjög alvarlegum umferðarhnút  – og það í miðjum miðbænum! Ekki gerðu bæjarfulltrúar eða starfsmenn bæjarins minnstu tilraun til að rökstyðja þetta furðuverk gagnvart bæjarbúum og sannfæra þá um að einhver glóra væri í því. Ekkert slíkt þrátt fyrir mikla viðleitni almennra borgara að særa út skýringar á þessari ósvinnu.

 

Hrossakaup látin afskiptalaus

Það sem vekur þó mesta furðu er að félagar mínir, Oddur Helgi og Logi Már, skulu aldrei hafa reynt að verja niðurstöðurnar frá 2014 sem þeir áttu mestan þátt í að móta og höfðu mikinn sóma af. Þá stóðu þeir sannarlega saman í stafni og stýrðu mikilli og flókinni vinnu af fagmennsku og ákveðni. En nú hafa þeir gefið sig þögninni algjörlega á vald þegar allt bendir til að vönduð stefnumótun þeirra og annarra í bæjarstjórn á þeim tíma verði eyðilögð í óskiljanlegum hrossakaupum innan  núverandi bæjarstjórnar án nokkurrar aðkomu bæjarbúa.  Engu líkara en að þessir frómu menn kannist ekkert við barnið sitt og afneiti því í raun þegar því er varpað á Guð og gaddinn. Láta eins og ekkert sé.  Svo er það einfaldlega frekar ódýrt að láta nægja að gera athugasemd við hugrenningar aldraðs innanbúðarmanns um að færa þjóðbrautina upp fyrir bæinn en steinþegja þegar bæjarstjórn lék niðurstöður þeirra félaga frá 2014 svo grátt að úr varð hreinn óskapnaður. Nær væri að þeir fylktu nú liði með okkur sem höfum miklar áhyggjur af þróun miðbæjarins og knýi á um að samþykktin frá 2014 verði endurnýjuð og komið til framkvæmda enda eiga þeir sjálfir mestan heiður af þeirri merku stefnumótun.

Ragnar Sverrisson

kaupmaður


Athugasemdir

Nýjast