Í dag afhentu Zontakonur á Akureyri Aflinu einnar milljón króna fjárstuðning á tröppum Zontahússins við Aðalstræti. Peningarnir eru hluti af afrakstri þess þegar Zontakonur um land allt stóðu dagana 7. og 8. mars sl. fyrir sölu á gullrósarnælu undir yfirskriftinni ,,Zonta gegn kynferðisofbeldi". (Myndir hér)
Heildar afrakstur söfnunarinnar var 8 milljónir og var ein milljónin sá hluti sem kom í hlut Aflsins, systursamstaka Stígamóta. Afhendingin fór fram að lokinni kvennasögugöngu sem vel yfir hundrað manns sóttu og buðu Zontakonur síðan upp á kaffi. Undir kaffi og kleinum flutti Valgerður Bjarnadóttir síðan hugvekju um jafnréttismál.
Það var 19. júní 1915 að íslenskar konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895. Í dag eru því liðin 93 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla.