16. febrúar, 2008 - 15:40
Ríflega þúsund manns voru á skíðum og brettum í Hlíðarfjalli í dag við nokkuð misjafnar aðstæður. Veður og
færi var með allra besta móti í morgun en þá snjóaði í logni en upp úr hádegi fór að rigna og hvessa og um leið
þyngdist skíðafærið. Gestir létu það ekkert á sig fá og skemmtu sér hið besta enda nægur snjór í fjallinu.
Þá fór fram Akureyrarmót á svigi, þar sem yngsta skíðafólkið reyndi með sér. Um 90% gesta eru aðkomufólk, sem
helgast m.a. af því að víða eru vetrarfrí í skólum á höfuðborgarsvæðinu og einnig eru í heimsókn á
Akureyri yfir 200 ungmenni úr félagsmiðstöðvum að sunnan.
Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Skíðastaða í Hlíðarfjalli, sagði að það hefði færst í vöxt
á undanförnum þremur til fjórum árum að börn og foreldrar af höfuðborgarsvæðinu kæmu norður á skíði þegar
vetrarfrí væru þar í skólum. Um 200-300 slíkir gestir hefðu til að mynda verið á skíðum í Hlíðarfjalli alla
vikuna. Margir gestanna eru óvanir á brettum og skíðum og nokkrir þurftu að leita sér aðhlynningar á slysadeild FSA eftir byltur í fjallinu
í dag og einn gestur var fluttur þangað með sjúkrabifreið. Guðmundur Karl sagði að hlýindi væru í kortunum næstu daga en að
svo væri gert ráð fyrir norðanátt á ný og snjókomu.