Vorfundur Samorku fer í Íþróttahöllinni á Akureyri nk. fimmtudag og föstudag. Þar verða flutt fjölmörg erindi auk þess sem
opnuð verður vöru- og þjónustusýning í tengslum við fundinn.
Þessir fundir, sem eru sameiginlegir með öllum fagsviðum Samorku, hafa skapað vissa hefð í starfsemi samtakanna. Þeir hafa verið haldnir á
þriggja ára fresti, allt frá árinu 1996 og er því komið að þeim fimmta. Dagskráin verður fjölbreytt að vanda og
nú hefur fagráðum Samorku fjölgað síðan síðast, þar sem fagráð fráveitna hefur verið
stofnað. Vörusýning sem sett hefur mikinn og vaxandi svip á fundina undanfarin ár verður að líkindum enn umfangsmeiri en síðast.
Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Samtökin voru stofnuð árið 1995 við samruna Sambands íslenskra hitaveitna
(stofnuð 1980) og Sambands íslenskra rafveitna (stofnuð 1942). Aðilar að samtökunum eru allar hitaveitur og rafveitur landsins ásamt flestum vatnsveitum og nokkrum
fráveitum. Aukaaðilar eru fyrirtæki og stofnanir sem tengjast orku- eða veitufyrirtækjum með einhverjum hætti. Samorka starfar á þremur
fagsviðum, þ.e. hitaveitna, raforkufyrirtækja og vatns- og fráveitna. Formaður stjórnar samtakanna er Franz Árnason
forstjóri Norðurorku á Akureyri.