Vegagerðin hefur sent frá sér viðvörun, þar sem vonskuverður er um allt land og færð á vegum víða slæm. Á Norðurlandi
er stórhríð á Vatnsskarði og Þverárfjalli og eins milli Blönduóss og Skagastrandar. Eins er komin stórhríð á
Víkurskarði og á leiðinni út á Grenivík. Þá er óveður á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og vegur
ófær yfir fjöllin.
Á Austurlandi er víðast hvar skafrenningur eða snjókoma. Fagridalur er lokaður eins og er vegna umferðaróhapps. Fjarðarheiði er ófær
en þar er óveður. Þungfært er yfir Oddsskarð.
Á Suðausturlandi er ekki fyrirstaða á vegum en óveður í Öræfunum. Í Sandfelli mælast hviður á milli 40 og 50 m á
sekúndu. Það er hálka og skafrenningur á Hellisheiði og í Þrengslum líkt og víða um Suðurland. Vonskuveður er vestan
Víkur, mikil veðurhæð og blint og þar er beðið með mokstur. Hálka og skafrenningur er á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum. Á
Vesturlandi er ófært um Fróðárheiði, Bröttubrekku og Svínadal en þungfært í Hvalfirði. Stórhríð er á
Laxárdalsheiði og í botni Hvammsfjarðar. Þá er ófært milli Reykhólasveitar og Flókalundar en þungfært um Kleifaheiði.
Búið er að moka Mikladal og verið að opna Hálfdán. Búið er að opna milli nágrannabyggða Ísafjarðar og mokstur er hafinn
í Ísafjarðardjúpi og á Steingrímsfjarðarheiði.
Vegagerðin bendir jafnframt á að vegir eru víðast hvar ekki mokaðir seint á kvöldin eða yfir nóttina og því ætti fólk
að varast að vera á ferð á vegum úti eftir að þjónustu lýkur nema útlit sé fyrir mjög gott veður.