Vinstri grænir vilja leggja sitt af mörkum í baráttunni við efnahagsvandann

Vinstri grænir vilja leggja sitt af mörkum í þeirri baráttu að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, verja stöðu heimilanna og kaupmátt launa. Forystumenn í flokknum kynntu tillögurnar á Akureyri í dag en þar hófst jafnframt fundaröð VG undir yfirskriftinni; Tökumst á við efnahagsvandann." Vinstri grænir vilja verja allt að 5 milljörðum króna til eflingar byggðarlaga sem glíma við samdrátt m.a. til að skapa konum störf, vinna gegn kynbundnum launamun og búferlaflutningum. Einnig er lagt til að húsaleigu- og vaxtarbætur verði stórauknar, komugjöld og sjúklingaskattar í heilbrigðiskerfinu verði afnumin og skólagjöld í opinberum skólum verði afmunin. Þá leggja Vinstri grænir til að kjör elli- og örorkulífeyrisþega verði stórbætt, hið opinbera bjóði skattfrjálsan sparnað og að fjárhagsstaða sveitarfélaga verði bætt um 5 milljarða króna gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Vinstri grænir vilja verja þremur milljörðum króna til að auka fjölbreytni og nýsköpun í atvinnumálum, styðja ferðaþjónustu og landbúnað og byggja upp þjóðgarða. Flokkurinn vill stöðva stóriðju- og stórframkvæmdir en grípa þess í stað til aðgerða á sviði umhverfis- og velferðarmála. Þá er lagt til að gjaldeyrisforði Seðlabankans verði aukinn og eigið fé bankans styrkt með innlendu skuldafjárútboði. Vinstri grænir leggja til að sett verði á stofn Þjóðhagsráð sem veitir stjórnvöldum ráðgjöf, metur framvindu og horfur í þjóðarbúskapnum og gefur mánaðarlega alit um stöðu mála. Loks er lagt til að lagður verði grunnur að sjálfbærri þróun í orkubúskap landsmanna.

Nýjast