Vinnuhópur skipaður vegna hugmynda um kirkjugarð í Naustaborgum

Skipulagsnefnd Akureyrar samþykkti á síðasta fundi sínum að skipa vinnuhóp um kirkjugarð í Naustaborgum. Eins og fram hefur komið hefur nýtt svæði fyrir kirkjugarð í Naustaborgum á Akureyri verið kynnt fyrir bæjaryfirvöldum. Um er að ræða svæði ofan við byggð í Naustahverfi, milli tjaldsvæðisins að Hömrum og golfvallarins og er gert ráð fyrir að þar verði framtíðarsvæði Kirkjugarða Akureyrar. Skipulagsnefnd tilnefndi Jón Inga Cæsarsson og Pétur Bolla Jóhannesson í vinnuhópinn og þá skipaði umhverfisnefnd þá Hjalta Jón Sveinsson og Jón Birgi Gunnlaugsson í vinnuhópinn fyrir hönd nefndarinnar. Forsvarsmenn Kirkjugarða Akureyrar hafa í nýlegu erindi óskað eftir því að skipulagsyfirvöld á Akureyri láti kanna ítarlega hvort raunhæfur möguleiki og vilji sé til að hrinda þeirri hugmynd í framkvæmd sem kynnt hefur verið. „Við höfum verið að þrýsta á skipulagsyfirvöld um að ákveða hvar framtíðarsvæði okkar eigi að vera þegar núverandi kirkjugarður klárast," sagði Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar, í Vikudegi fyrr í vetur.

Nýjast