„Þetta var auðvitað slæmt," segir Víðir Björnsson framkvæmdastjóri hjá Norðurskel, „eiginlega alveg rosalegt áfall, það er ekki hægt að segja annað." Nú er bjartara framundan og vinnsla hófst af fullum krafti í síðustu viku. Verið er að pakka kræklingi á markað í Belgíu og eins kom pöntun frá Frakklandi, „þeir hafa aldrei pantað hjá okkur áður, svo við erum himinlifandi með það," segir Víðir.
Varðandi eitrun þá sem upp kom í sumar segir Víðir að hún hafi gert mönnum ljósa grein fyrir því að nauðsynlegt sé að koma upp kræklingarækt á fleiri stöðum á landinu. Menn geti þá miðlað afurðum sín á milli því eitrun er iðulega staðbundin. Hann segir að í fyrra og á þessu ári hafi verið stofnuð 14 fyrirtæki um kræklingarækt víðs vegar um landið sem sýni að um vaxandi atvinnugrein sé að ræða í landinu. Félögin eru á svæðinu frá Hvalfirði, vestur, norður og austur um allt að Djúpavogi. Víðir segir að þeir sem nú séu að hefja framleiðslu geti lært af mistökum Norðurskeljamanna sem eru frumkvöðlar í kræklingarækt og hafa marga fjöruna sopið um árin varðandi veiðar og vinnslu. Þeir barnasjúkdómar séu nú að baki og Norðurskel miðli fúslega af reynslu sinni.
Áætlað er að Norðurskel framleiði um 40 tonn af skel í ár, en á næsta ári er stefnt að því að auka framleiðsluna til muna og áætlanir gera ráð fyrir að framleidd verði um 180 tonn árið 2010. „Við höfum fengið mjög góðar viðtökur, eyfirska skelin þykir mikið lostæti og söluhorfur framundan eru góðar, þannig að þrátt fyrir allt erum við bjartsýn á framtíðina," segir Víðir og bætir við að verðið sé gott og greitt er í evrum. Það bjargi miklu á þessum tíma.
Starfsmenn hjá Norðurskel eru nú 8 talsins, en um mánaðamót verður 6 starfsmönnum bætti við vegna mikilla verkefna framundan. „Og það munar um það í Hrísey, þetta er stór vinnustaður hér," segir Víðir.