11. febrúar, 2008 - 09:58
Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA) og Hjúkrunarþjónusta Eyjafjarðar ehf. (HE) hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis að FSA og HE
geri samning um þjónustu og rekstur líknardeildar við FSA. Heilbrigðisráðuneytið hefur falið Sjúkrahúsinu á Akureyri að
undirbúa og hefja rekstur líknardeildar við FSA. Hjúkrunarþjónusta Eyjafjarðar byggir á starfsemi Heimahlynningar á Akureyri og er
sérhæft þjónustufyrirtæki í líknandi meðferð. Undirbúningur að stofnun líknardeildar við FSA hefur staðið um
nokkurn tíma. Í lok árs 2005 var Bjarmi líknarfélag ehf. stofnað til að standa að byggingu og rekstri fasteignar fyrir líknardeild í
samvinnu við FSA.
Að félaginu standa Kaupfélag Eyfirðinga, Sparisjóður Norðlendinga, Oddfellowstúkurnar á Akureyri, Lionsklúbbar í umdæmi 109B -
svæði 7 og 8, Minningarsjóður Heimahlynningar á Akureyri, Soroptimistaklúbbur Akureyrar og Sjúkrahúsið á Akureyri. Alþingi hefur
heimilað FSA að gera leigusamning um húsnæði fyrir starfsemina og á fjárlögum 2007 og 2008 voru fjárveitingar til að undirbúa reksturinn.
Deiliskipulag lóðar FSA, sem nú er til umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum bæjarins, gerir ráð fyrir að nýtt húsnæði
fyrir líknardeild verði sunnan við nýbyggingu sjúkrahússins, syðst og austast á lóðinni. Að skipulaginu samþykktu verður unnt
að hefjast handa við frekari hönnun húsnæðis og undirbúning byggingaframkvæmda. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á
vormánuðum 2008 og að deildin geti tekið til starfa í byrjun árs 2009.