Um er að ræða tvær Twin Otter flugvélar og tengdan rekstur en helstu verkefni hafa verið áætlunarflug út frá Akureyri til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar, leiguverkefni á Grænlandi og viðhaldsverkefni í viðhaldsstöð félagsins á Akureyri. Um tuttugu manns vinna við rekstur Twin Otter vélanna á Akureyri, aðallega flugvirkjar og flugmenn. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, er ánægður með viljayfirlýsinguna og segir að hún sé skref í átt að því markmiði Flugfélags Íslands að starfsemin í kringum Twin Otter vélarnar haldist á Akureyri og geti enn frekar vaxið og dafnað í höndum nýrra eigenda.
Friðrik Adolfsson, sem fer fyrir hópi fjárfestanna, segir að mikil tækifæri til vaxtar felist í þessum rekstri. Mikil uppbygging eigi sér stað á Grænlandi sem kalli á aukin verkefni fyrir Twin Otter vélarnar. Þá sé verið að skoða fleiri vaxtarbrodda, meðal annars tengda fyrirhugaðri stækkun Akureyrarflugvallar.
Fyrirtækjaráðgjöf Saga Capital Fjárfestingarbanka hafði milligöngu um söluna sem ráðgjafi og fulltrúi Flugfélags Íslands.