Við vorum líka með plan

Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri
Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri

Húsnæðismál eldri borgara á Akureyri hafa kallað á frekari athygli og úrbætur og ekki síst eftir að upp kom mygla á Hlíð haustið 2022. Endurbætur hafa enn ekki hafist á þeim 22 hjúkrunarrýmum sem tekin voru úr notkun og ekki hefur heldur verið tekin ákvörðun um framtíð austurálmu Hlíðar sem er illa farin. Þetta hefur valdið fráflæðisvanda á SAk, aukið álag á stuðningsþjónustu og aðstandendur og ekki síst íbúa okkar sem svo nauðsynlega þurfa á þessari þjónustu að halda.

Ekki einungis hefur tafist að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á húsnæði Hlíðar, heldur hefur uppbygging nýs hjúkrunarheimilis á Akureyri einnig dregist á langinn. Fyrst átti nýtt hjúkrunarheimili að rísa við Lögmannshlíð en svo var ákveðið, í samráði við ríkið, að stefnt yrði að uppbyggingu í Þursaholti og ráðast í leiðinni í heilmikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir eldri borgara. Með því gafst tækifæri til að flýta uppbyggingu lífsgæðakjarna, þar sem hvorki var rými fyrir slíka uppbyggingu við Lögmannshlíð né fyrirsjáanlegt að skipulag vegna stækkunar Hagahverfis yrði tilbúið á næstunni. Sú stækkun var ekki einu á aðalskipulagi. Eitt þurfti ekki að útiloka annað.

Í nokkurn tíma hafa farið fram viðræður við ríkið um útfærslu lífsgæðakjarna í Þursaholti og hvernig væri best að haga útboði til að einfalda alla skipulagsvinnu. Þannig lægju fyrir skýrar forsendur til að hefja umfangsmikla uppbyggingu hjúkrunarheimilis og íbúða fyrir eldri borgara. Í vor kom Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, norður og skrifaði undir samning um uppbyggingu 80 hjúkrunarrýma í Þursaholti og stefnt að útboði án frekari tafa. Það verður svo einkennileg vending í málinu í sumar þegar okkur að óvörum kemur sú beiðni frá ríkinu að taka frá 40 rými til viðbótar fyrir mögulega framtíðarviðbyggingu í Þursaholti, án þess að fyrir liggi hvenær slík framkvæmd gæti orðið að veruleika. Þar með urðu að engu fyrirætlanir um lífsgæðakjarna í Þursaholti.

Hvað þýðingu hefur þetta? Næsta uppbygging hjúkrunarrýma verður mögulega annað hvort í nýrri álmu við Hlíð og/eða viðbyggingu í Þursaholti og við sjáum mögulega ekki lífsgæðakjarna rísa á Akureyri í fyrirhugaðri framtíð.

Hvað vilja íbúar?

Undirrituð furðar sig á því að skipulagsráð hafi samþykkt þessa breytingu án frekari umræðu og lagt til við bæjarstjórn að auglýsa breytt skipulag, sem í reynd felur í sér að ekkert verði af sameiginlegri uppbyggingu á lífsgæðakjarna. Þá var málinu ekki vísað til umræðu í bæjarráði, þar sem áður hafði farið fram umræða um mögulegt samkomulag við ríkið um uppbyggingu lífsgæðakjarna í Þursaholti.

Við bæjarfulltrúar Framsóknar lögðum fram eftirfarandi bókun á bæjarstjórnarfundi við afgreiðslu þessa máls og viljum um leið leggja áherslu á að íbúar geta enn haft áhrif á endanlega afgreiðslu málsins:

Lýsum yfir vonbrigðum með breytt fyrirkomulag á skipulagi hjúkrunarheimilis í Þursaholti, enda teljum við það tefja fyrir uppbyggingu lífsgæðakjarna á Akureyri. Áður lá fyrir samkomulag við ríkið um 80 hjúkrunarrými og uppbyggingu lífsgæðakjarna með íbúðum fyrir eldri borgara og viðræður staðið í nokkra mánuði hvernig ætti að haga því útboði. Nú er hins vegar gert ráð fyrir 40 rýmum til viðbótar fyrir framtíðarviðbyggingu, sem tefur og torveldar framgang lífsgæðakjarna og gerir út um þær hugmyndir í Þursaholti. Tafir sem munu valda því að á þessu kjörtímabili hefst engin uppbygging íbúða fyrir eldri borgara. Jafnframt hefur endurbótum á Hlíð seinkað og útboð á nýju hjúkrunarheimili dregist, sem hefur haft neikvæð áhrif á þjónustu við eldra fólk og aukið álag á heilbrigðis- og stuðningsþjónustu. Þrátt fyrir vonbrigði, þá samþykkjum við að auglýsa breytt skipulag, enda ekki ætlunin að standa í vegi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu hjúkrunarrýma. Við ítrekum þó gagnrýni okkar á að fyrra samkomulag hafi verið virt að vettugi og teljum að farsælast hefði verið að vinna samkvæmt fyrirliggjandi stefnumótun, enda liggur mjög á uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða fyrir eldri borgara.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri

Nýjast