Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs segir að fjárveitingar til snjómoksturs og gatnahreinsunar á Akureyri hafa ekki verið skornar
niður, þvert á móti.
Hann segir að áhersla verði lögð á að sinna báðum þessum verkefnum vel. Snjómokstur, hálkuvarnir og þrif á sandi af
götum eftir að snjóa leysir hafi verið til umræðu í bænum að undanförnu. Hvað snjómoksturinn varðar segir Hermann
mikilvægt að hafa í huga að veturnir séu miserfiðir, tíðarfar ræður miklu um það hvernig gengur að sinna þessu verkefni
þannig að vel sé. "Síðasti vetur var erfiðari en veturnir þar á undan og því reyndi meira á starfsmenn bæjarins og
þá verktaka sem að þessu vinna fyrir okkar hönd. Almennt fannst mér þeir standa sig vel þó vissulega megi alltaf finna dæmi um eitthvað
sem betur má fara," segir Hermann.
Hann segir ljóst að þegar kemur að hálkuvörnum þá hafi allar þær leiðir sem til greina koma sína kosti og galla. "Hingað
til höfum við valið að nota grófan sand eða fína möl en það er vissulega umhugsunarefni það mikla magn sem við þurfum fyrst
að dreifa á götur bæjarins og síðan hreinsa upp aftur. Ég held að við verðum nú að leita annarra leiða en jafnframt þurfa
bæjarbúar að vera meðvitaðir um ábyrgð sína og haga akstri eftir aðstæðum á götum bæjarins. Síðan tel ég
mikilvægt að bæta verulega snjómokstur og hálkuvarnir á þeim gönguleiðum sem mest eru notaðar á veturna."
Nýr svifryksmælir er væntanlegur innan tíðar og segir formaður bæjarráðs að nú sé verið að leita aðila til að
greina nákvæmlega samsetningu svifryks í bænum. "Þegar sú greining liggur fyrir erum við betur í stakk búin til að velja aðgerðir
sem gagnast í baráttunni við svifrykið," segir hann. Vorhreinsun á götum bæjarins er hafin. Starfsmenn bæjarins hófust handa við það
verkefni um leið og það var talið tímabært.