Verslunin sendir ekki vörur út á land

Neytendur á landsbyggðinni verða stundum varir við það að þeir sitja ekki við sama borð og íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Nýlega hafði kona, búsett á landsbyggðinni, samband við Neytendasamtökin en hún hafði fengið auglýsingabækling frá versluninni Toys´R´us sendan heim. Þegar hún hringdi í verslunina og hugðist panta varning fékk hún að þær upplýsingar að verslunin sendi ekki vörur út á land. Konan var að vonum ekki ánægð með þetta. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem samtökin fá kvartanir vegna verslana á höfuðborgasvæðinu sem neita að senda vörur út á land, en samtökin fá þó einnig fréttir af verslunum sem gera vel við viðskiptavini hvar sem þeir búa. Verslunum er að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvort þær senda vörur út á land eða ekki en það hlýtur að vera einkennileg afstaða hjá seljendum að neita fólki um viðskipti eftir búsetu. Viðskiptavinirnir borga jú sjálfir sendingakostnaðinn. Önnur kvörtun sem samtökunum bárust snerist um tilboðsauglýsingu í blaði. Kona sá auglýst ungnautahakk á tilboðsverði í Bónus. Þegar í búðina var komið var ekkert tilboð á ungnautahakki og kom þá í ljós að auglýsingin gilti ekki þar sem konan var búsett. Auglýsingin birtist í blaði sem sent er út um allt land og því er mikilvægt að seljendur taki skýrt fram ef einhverjir fyrirvarar eru á auglýstum tilboðum, segir í frétt frá Neytendasamtökunum.

Nýjast