Samþykkt hefur verið að ganga til samninga við Verk lausn ehf um byggingu smáíbúða fyrir Akureyrarbæ. Dómnefnd sem fór yfir málið í kjölfar útboðs lagði til að tilboði fyrirtækisins yrði fyrir valinu og samþykkti umhverfis- og mannvirkjaráð þá niðurstöðu dómnefndar.
Íbúðirnar eru fyrir þá skjólstæðinga Akureyrarbæjar sem glíma við heimilisleysi og fjölþættan vanda, heilsufarslegan, geðræðan eða vímuefnavanda, sem bæði getur verið orsök og afleiðing húsnæðisskorts.
Smáhýsin eru hugsuð út frá hugmyndafræðinni „Húsnæði fyrst“ þar sem skjólstæðingum er útvegað húsnæði án þess að sérstakar kröfur séu gerðar til þeirra aðrar en viljinn til að eignast heimili og eiga þar sama stað. Önnur félagsleg aðstoð er svo veitt samhliða, byggð á einstaklingsbundnum þörfum. Hugmyndafræðin er m.a. byggð upp í kringum þær grunnhugmyndir að allir eigi rétt á heimili, hafi val og rétt til að hafa áhrif á eigin aðstæður.
Heilnæmt húsnæði
Í tillögunni eru settar fram hugmyndir að vönduðum smáhýsum úr timbri með hallandi bárujárnsþaki. Húsin eru hlýleg og látlaus í útliti. Lögð er áhersla á að húsin séu vönduð og þau hafa þekkt og klassískt byggingarform, eru vinaleg og sóma sér vel í bæjarmyndinni. Húsin eru eru einföld, hagkvæm og umhverfisvæn. Timburhús sem anda, hafa ekki í sér mengandi efni, og þar sem rakaöryggi er tryggt þannig að húsnæði er heilnæmt.