10. febrúar, 2008 - 11:17
Veitingamenn á Akureyri fylgjast grannt með gangi mála syðra varðandi reykingar á veitingastöðum, en sem kunnugt er gekk í gildi bann við
reykingum á veitingastöðum á liðnu sumri. Sumir íhuga að útbúa reykherbergi á stöðum sínum verði það
heimilað. Birgir Torfason veitingamaður á Kaffi Akureyri og Vélsmiðjunni segir ekki ólíklegt að útbúið verði reykherbergi á
veitingastöðunum báðum. „Við höfum lent í auknum vandræðum vegna þessa, fólk er hér á ferðinni út og inn og
erfitt að henda reiður á straumnum, sumir á leið út að reykja eða koma inn frá því að reykja og aðrir í biðröð
eftir að komast inn," segir Birgir.
Hann segir þetta mál sem verði að leysa með einhverjum hætti "og mér sýnst að best fari á að útbúa sér reykherbergi."
Birgir nefnir einnig að þegar veður sé vont, kalt og blautt eins og undanfarnar vikur, sé enn verra að eiga við þetta, nánast ómögulegt.
Hann segir að komur gesta á Kaffi Akureyri hafi dregist saman yfir daginn um allt að 80% og það þýði vitanlega tekjutap. Greinilega hafi reykingafólk
sótt staðinn í meira mæli en þeir sem ekki reykja, fólk sem hefur slakað á yfir kaffi og reyk, en þegar kalt er í veðri leiti
það annað. „Maður hefði nú kannski haldið að fólk sem ekki reykir myndi sækja staðina í meira mæli, en það
lætur ekki sjá sig."
Þórhallur Arnórsson veitingamaður í Sjallanum segir að almennt hafi gengið mjög vel að framfylgja reykingabanninu, það hafi verið
fyrst um liðna helgi eftir háværar umræður í fjölmiðlum um stöðu mála í Reykjavík að hann hafi rekist á
fáeina sígarettustubba innandyra. „Okkar gestir hafa tekið þessu banni mjög alvarlega og fylgja því vel. Ég kveið þessu
dálítið í fyrstu í fyrrasumar, en það var greinilega óþarfi, allt hefur gengið vel," segir Þórhallur. Þeir gestir sem
bregða sér út fyrir til að reykja fara um annan útgang en þeir sem eru að koma inn og því hafa ekki skapast vandræði af þeim
sökum. Þórhallur segir að vissulega væri ákjósanlegra að gestir hefðu betra skjól fyrir norðangarranum, en litlir möguleikar
væru fyrir hendi að útbúa það við Sjallann. Hann hefði hins vegar Kjallarann ónotaðan og þær væri reykaðstaða fyrir
hendi ef til þess kæmi að leyfi yrði veitt til að útbúa aðstöðu af því tagi.