09. febrúar, 2008 - 14:48
Útlán á Amtsbókasafninu á Akureyri fóru í fyrra yfir 200 þúsund og er það í fyrsta sinn sem það gerist.
Bæjarbúar sækja safnið jafnt og þétt yfir árið og fjölgar heimsóknum stöðugt. Hólmkell Hreinsson
amtsbókavörður segir að starfsemin gangi ljómandi vel, safnið sé vel sótt og gestakomum fjölgi öfugt við þá þróun
sem virðist vera í nágrannalöndum okkar, þar sem dregið hefur úr komum á bóksöfn. Á liðnu ári komu alls um 113.750 manns
á safnið en þeir voru ríflega 107 þúsund árið á undan.
Gantast hefur verið með að gestafjöldi ársins 2006 hafi verið slíkur að hefði fólkinu sem þangað kom verið stillt upp í beina
röð hefði hún náð til Ólafsfjarðar. „Þannig að líklega myndi gestafjöldi liðins árs ná alla leið að
Héðinsfjarðargöngum uppstilltur í eina beina röð," segir Hólmkell. Útlán voru sem fyrr segir yfir 200 þúsund í fyrra.
„Þetta er allt á réttri leið, fólki þykir greinilega gott að koma hingað," segir Hólmkell. Útlán skiptast þannig að
um 70% þeirra eru bækur, 16% tímarit, 7% DVD myndir, 2% myndbandsspólur, 1% tónlist og 1% hljóðbækur.
„Bæjarbúar eru mjög duglegir að sækja safnið og við erum ánægð með það, það er ekkert sem gefur til kynna að
breyting verði þar á," segir Hólmkell, en auk þess sem gestir sækja sér gögn af ýmsu tagi hefur safnið staðið fyrir
viðburðum margskonar, sýningum, erindum og upplestrum svo dæmi séu tekin.