Torfunefsbryggju á Akueyri verður ekki haldið við

Ekki er gert ráð fyrir bryggju á þeim stað þar sem Torfunefsbryggja stendur, samkvæmt aðalskipulagi Akureyrarbæjar og því hefur henni ekki verið haldið við, að sögn Harðar Blöndal hafnarstjóra Hafnasamlags Norðurlands. Eins og greint hefur verið frá skemmdist fremsti hluti Torfunefsbryggju talsvert í hvassviðrinu sem gekk yfir Akureyri 30. desember sl. Félagar í Súlum björgunarsveitinni á Akureyri ásamt umsjónarmönnum bátsins Húna II stóðu í ströngu í hvassviðrinu við að festa bátinn eftir að fremsti hluti bryggjunnar fór að losna í miklum sjógangi. Fremsti hluti Torfunefsbryggju er úr timbri og hafði hann losnað frá steypta hluta hennar. „Þetta er gömul bryggja sem ekki er ætlunin að halda við að nokkru marki, því að samkvæmt skipulagi verður hafnarsvæðið þarna að stærstum hluta aflagt. Það er ekki inni á neinum skipulagsplönum að byggja þarna nýjar bryggjur og því er miklu nær að þetta verði rifið heldur en endurnýjað. Ef gera á þessa bryggju upp þarf að breyta skipulaginu og gera ráð fyrir að þarna verði einhver hafnarmannvirki," sagði Hörður. Hann bætti því við að ekki ætti að stafa hætta af bryggjunni núna þrátt fyrir að hún sé gömul og lúin en hann sagðist ekki mæla með því að menn væru á þvælingi á henni að óþörfu.

Nýjast