Tilraun til að nýta trjákurl til ræktunar hófst á Háuborg í Eyjafjarðarsveit í gær, en um er að ræða
samvinnuverkefni sem Háaborg, Félagsbúið Garður og Hríshóll í Eyjafjarðarsveit auk Tætingar á Akureyri taka þátt
í.
Bryndís Símonardóttir skógarbóndi í Háuborg segir að í vor hafi verið komin tími til að grisja og það væri
mikið mál að losa sig við það sem til félli, dýrt væri að flytja afskurðinn til endurvinnslu á Akureyri. Hún hafi
séð umfjöllun um nýjan tætara hjá félaginu Tætingu í Vikudegi og haft samband við fyrirtækið. Jörundur H.
Þorgeirsson framkvæmdastjóri þess hafi verið fús að koma á staðinn og tæta það sem til féll við grisjun þar.
"Það er mun betri kostur að fá eitt tæki á staðinn heldur en að flytja efnið í mörgum ferðum fram og til baka um langan veg með
tilheyrandi kostnaði og olíueyðslu," segir Bryndís og kveður mikið hagræði af þessu fyrirkomulagi. Hún segir að eyfirsku bændurnir
í félagi við Tætingu standi sameiginlega að verkefninu og vonar að bændur muni taka því fagnandi.
Kurlið sem til fellur er nýtt heima við, því er dreift á tún og flög, af því er mikil jarðvegsbót, það eykur
kolefni og súrefni jarðvegsins og gerir hann léttari. Að líkindum má spara áburðarkaup með því að hafa þennan
háttinn á. Jörundur H. Þorgeirsson hjá Tætingu segir frábært að taka þátt í þessu verkefni, það sé
mikilvægt að hver og einn geti nýtt afurðina heima við sér til hagsbóta og þannig sé um mjög jákvæða og umhverfisvæna
tilraun að ræða. Tætarinn er afkastamikill, hann vinnur úr um 230 rúmmetrum af efni á klukkustund og er glænýr. "Ég tel mikla
möguleika í þessu og við ætlum að sýna fólki að þetta er hægt," segir hann.