Því miður spila margir á ástandið segir formaður Einingar-Iðju

„Þær hækkanir sem nú hellast yfir okkur til viðbótar þeirri gengisfellingu sem orðið hefur á krónunni ofan á allt annað gera ástandið mun verra en við gerðum ráð fyrir þegar kjarasamningar voru gerðir," segir Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju. Hann minnir á að meginmarkmið samninganna hafi verið að lækka verðbólgu og treysta þannig kaupmátt launafólks. "Við gerðum ráð fyrir einhverju verðbólguskoti núna, en síðan var stefnan sú að leiðin lægi niður á við. Nú er spurning hvort menn lendi í einhverjum stöllum í þeirri brekku," segir Björn og spurning sé hvort samningar haldi. Skýr rauð strik séu í samningum, verðbólga fari ekki yfir 5,5% og að kaupmáttur launa haldist. „Ef það klikkar þá halda samningarnir ekki, það er ljóst og þá verða menn bara að setjast niður og semja upp á nýtt." Björn segir það nokkuð skýrt að margir notfæri sér ástandið og hækki vörur og þjónustu, verslunin og þjónustuaðilar hafi hækkað og boða enn frekari hækkanir langt umfram það sem tilefni er til. „Ég held því miður að margir séu að spila á þetta ástand og auka þar með á verðbólguna. Það er ábyrgðarhluti og vissulega grátlegt að menn séu með þessum hætti að ganga þvert á markmið samninganna," segir Björn. Hann bendir í því sambandi t.d. á að menn séu furðu fljótir að hækka hjá sér allt á lagerum verslana, en hið sama gildi ekki þegar um hægist, þá standi frekar í mönnum að lækka. Hann kveðst þó ekki svartsýnn. „Ég vona að þetta fari ekki allt á versta veg og að samningarnir haldi. Að mínu mati verða stjórnvöld að grípa inn í atburðarásina, það er þeirra skylda. Það verða allir að leggjast á árar til að hlutirnir fari ekki úr böndunum, það verður að gera eitthvað áður en í óefni er komið."

Nýjast